135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

147. mál
[16:34]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg makalaust að hlusta á ræður eins og hjá hv. þm. Jóni Gunnarssyni. Hann ver núverandi fiskveiðistjórnarkerfi þrátt fyrir að nýlega sé fram komið álit frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna þess efnis að fiskveiðistjórnarkerfið á Íslandi gangi ekki upp, verið sé að mismuna mönnum hvað varðar aðgang að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar.

Uppbygging fiskstofnanna hefur ekki tekist. Við veiðum nú 130 þús. tonn af þorski en árið 1984, þegar fiskveiðistjórnarkerfið var sett á, veiddum við 267 þús. tonn af þorski. Útlit var mjög svart og mikill niðurskurður. Okkur sjómönnum var lofað því að ef við færum að tillögum fiskifræðinga í þrjú ár yrðum við væntanlega farnir að veiða um 350–450 þús. tonn á hverju ári.

Þegar verið er að tala um stöðu útgerðar á Íslandi fyrir og eftir kvótakerfið má ekki gleyma því að upp úr 1984 byrjuðu menn að flytja fisk út í gámum og fengu þar af leiðandi miklu hærra verð fyrir hann en þeir höfðu haft áður eftir svokölluðu verðlagsráðsverði eða öðrum aðferðum. Við byrjuðum líka að setja fisk á fiskmarkað 1986 og gjaldþrotum fjölgaði töluvert eftir 1984 og voru fleiri gjaldþrot eftir 1984 en fyrir. Ríkisbankarnir voru að grisja fyrirtæki úr á þessum árum. Skuldir í sjávarútvegi eru nú 310 milljarðar, tekjur 130. Af því að þú minntist á síldarævintýri, 1990 veiddum við 120 þús. tonn af síld en nú aðeins (Forseti hringir.) 155 þús. tonn.