135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

147. mál
[17:11]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Við höfum verið að brjóta mannréttindi í 24 ár með óréttlátu fiskveiðistjórnarkerfi. Um það held ég að ekki sé ágreiningur hjá þingflokkum á Alþingi að undanskildum Sjálfstæðisflokknum. Fyrningarleið sem á að taka 20 ár eins og vinstri grænir eru að leggja til tel ég taka of langan tíma og tel að það gangi ekki að bjóða fólki upp á slíkt.

Ég fékk heldur ekki svar við tveimur atriðum sem ég minntist á. Annars vegar um veiðileyfagjaldið og hins vegar um allan fisk á fiskmarkað. Ég óska eftir því að hv. þm. Ögmundur Jónasson útskýri það betur fyrir mér hvað þeir vilja og hvað þeir meina þegar þeir tala um fisk á markað sem ekki er í föstum og beinum viðskiptum. Ég skil þetta ekki og hef aldrei skilið og það er kannski best að gefa hv. þingmanni tækifæri til að útskýra það.