135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

147. mál
[17:14]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Hér er um við að ræða frumvarp til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða sem vinstri grænir hafa lagt fram. Fyrsti flutningsmaður hv. þm. Björn Valur Gíslason er reyndar ekki á þingi núna. Hann er væntanlega að draga björg í bú úti á hafi. Hann er einn af hermönnum þjóðarinnar og hetjum hafsins.

Það eru kostir og gallar við þetta frumvarp og mörg atriði er svo sem gott að minnast á og fjalla um en margt af því sem í þessu frumvarpi stendur er einfaldlega bara tínt upp úr lögum um stjórn fiskveiða og lögð er áhersla á að það þurfi raunverulega að standa við það sem stendur í lögum um stjórn fiskveiða. Ætla ég aðeins að minnast á nokkur atriði en ég vil byrja á því að segja að í staðinn fyrir að gildistími núverandi laga er til 1. september 2010 þá hefði ég sagt að gildistíminn ætti að vera til 12. júní 2008 og þá hefðum við þurft, vegna álits mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, að vera komnir með hugmyndir að nýju fiskveiðistjórnarkerfi.

Það stóð í frumvarpinu og stendur í greinargerð og í lögunum um stjórn fiskveiða og ef ég man rétt: „Mjög mikilvægt er að sjávarútvegurinn búi við stöðugleika.“ Þetta stendur meira að segja í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar. Hvað þýðir það? Þýðir þetta atriði í stefnuskránni að menn ætli sér að hafa óbreytt kerfi? Þess vegna vil ég minna á blaðsíðu 2 í þessu frumvarpi í greinargerðinni. Þar voru taldir upp fjórir liðir, þ.e. að vernda fiskstofnana — það er tilgangur kerfisins — að stuðla að hagkvæmri nýtingu þeirra, í þriðja lagi að treysta atvinnu og í fjórða lagi að efla byggð í landinu. Þetta er ekkert nýtt. Þetta stendur í lögum um stjórn fiskveiða í rauninni, kannski sums staðar með öðru orðalagi.

Svo er hér eitt sem ég er ekki sáttur við og ég vil lesa upp, með leyfi forseta:

„Þvert á markmið núgildandi laga um stjórn fiskveiða sýna rannsóknir Hafrannsóknastofnunarinnar að helstu nytjastofnar sjávar standa höllum fæti.“

Það eru reyndar sumir stofnar sem standa höllum fæti en sem betur er ekki allir jafnilla og stjórnvöld eða Hafrannsóknastofnun vill halda.

Einn liður hér er menntamál sem ég er mjög sáttur við að standi í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Stórefla verður alhliða menntun í sjávarútvegi og auka tækifæri fólks til að afla sér frekari menntunar í greininni.“

Í dag er staðan sú í menntamálum að sárafáir nemendur eru í Stýrimannaskólanum, nokkru fleiri eru í Vélskólanum þó þetta sé orðið allt í sama skólanum. En það er búið að leggja niður Fiskvinnsluskólann á Íslandi. Það er bara hreinlega búið að leggja hann niður. Svo þegar komið er að liðnum um sjálfbæran sjávarútveg þá stendur, með leyfi forseta:

„Sjálfbær sjávarútvegsstefna þarf í senn að taka mið af umhverfislegum, samfélagslegum og efnahagslegum þáttum með það að markmiði að varðveita náttúru og lífrænar auðlindir hafsins, treysta byggð og atvinnu sem víðast og skapa sem mest verðmæti af sjávarauðlindunum innan lands.“

Manni finnst maður hafa heyrt þetta allt áður. Sama á við um þetta, með leyfi forseta:

„Brýnt er að með nýjum lögum um stjórn fiskveiða verði litið til verndunar og nýtingar lífrænna auðlinda hafsins í heildstæðu samhengi. ... Nauðsynlegt er að stórefla hafrannsóknir með sérstakri áherslu á að fylgjast með samspili tegundanna og viðgangi staðbundinna stofna.“

Þetta er bara það sem hefur almennt verið orðað í markmiðum ríkisstjórna í gegnum tíðina.

„... rannsaka áhrif ólíkra veiðarfæra á hafsbotninn ...“

Þarf þess? Er ekki ljóst í dag að dregin veiðarfæri eru með allt öðrum hætti en staðbundin veiðarfæri? Er það virkilega álit vinstri grænna að nú þurfi að rannsaka það betur? Þetta er hlutur sem hefur alltaf í mínum huga legið í augum uppi.

Það kemur hér eitt sem ég hef merkt við plús því ég tel það vera af því góða, með leyfi forseta:

„Þróa þarf vistvænar veiðiaðferðir sem valdi sem minnstum skaða á hafsbotni, lífríki sjávar og uppvaxtarskilyrðum í hafinu, skili hágæðahráefni, nýti sem best orku og valdi sem minnstri mengun, m.a. af gróðurhúsalofttegundum.“

Þetta er auðvitað allt hægt að tala um en þetta er ekki að mínu mati það sem við erum að leita eftir. Þetta eru góð markmið sem slík en það er ekki sagt hvernig á að útfæra vinnuna í atvinnugreininni.

Síðan kemur eitt í viðbót sem ég merkti við reyndar við með mínus, með leyfi forseta:

„Endurskoða þarf þá þætti fiskverndar sem lúta að reglum um löndun meðafla, notkun veiðarfæra, landhelgislínum sem vernda grunnslóðina, friðun svæða og friðun á hrygningartíma.“

Þetta er allt þekkt líka. En það er bara ekki nema mánuður síðan við samþykktum í þinginu frumvarp — reyndar í minni andstöðu og við í Frjálslynda flokknum vorum á móti því — þar sem var verið að fá sterkari heimild fyrir sjávarútvegsráðherra á hverjum tíma til að geta lokað svæðum og opnað svæði. Og hver hefur orðið raunin? Það er búið að opna fullt af veiðisvæðum, bæði fyrir togurum, jafnvel inn fyrir 12 mílurnar og víða upp í fjöru á viðkvæmum svæðum eins og með allri suðurströndinni frá Þorlákshöfn og austur að Ingólfshöfða fyrir snurvoð.

Síðan er hér mikill kafli í greinargerð þessa frumvarps sem heitir Sjómenn græða hafið. Þetta er auðvitað mjög fallegt og gott. En hvað með þá togveiðar og snurvoð? Er verið að segja það að eigi hver ekki að nota togveiðarfæri og snurvoð? Það er auðvitað það sem mér finnst að vinstri grænir þurfi að svara fyrir.

Neðst á blaðsíðu 4 í þessari greinargerð stendur, með leyfi forseta:

„Til þessa rannsóknarverkefnis verði úthlutað tilteknum aflaheimildum á hverju rannsóknarsvæði.“

Þar er verið að tala um að veita mönnum tækifæri til að stunda rannsóknir inni á hverjum flóa og firði eða hvernig sem það er útfært. Hugmyndin að þessu er auðvitað mjög jákvæð.

„Sjómenn og útgerðir gætu sótt um að fá aðild að verkefninu og fengið þar með taldar rannsóknarveiðiheimildir, ...“ — þetta er auðvitað mjög gott en það stendur hér til viðbótar þessu: „gegn því að sinna ákveðnum skyldum í tiltekinn tíma í samvinnu við Hafrannsóknastofnunina ...“

Ég er alveg ósammála að svo þurfi að vera því það sem við þurfum að gera í hafrannsóknum á Íslandi er að hleypa fleiri aðilum að til að rannsaka en ekki bara Hafrannsóknastofnun. Hafrannsóknastofnun hefur ægivald yfir flestum rannsóknaverkefnum sem eru í gangi, ræður þar nánast hverjir fá að fara í og hverjir hafa um það að segja, er venjulegast alltaf spurð álits og þarf að gefa álit til sjávarútvegsráðherra hvort þetta verkefni sé skynsamlegt eða ekki. Ég hefði miklu frekar viljað sleppa þarna Hafrannsóknastofnun og segja að stofnanir og fyrirtæki á sviði hafrannsókna, veiða og vinnslu, fengju tækifæri til að vera þátttakendur í þessu.

Í þessum kafla Sjómenn græða hafið er verið að líkja þessu við að bændur græði landið. Er það þá vilji manna að leggja þetta að jöfnu? Eru þá ekki vinstri grænir hreinlega að segja að troll með hlerum verði aldrei dregið? Ég sæi ekki einn einasta bónda fyrir mér að ætla að græða landið sitt með því að draga fimm, sex tonna hlera tvo á eftir sér yfir landið sitt, yfir ræktað tún, kjarr eða skóga. Það er ýmislegt sem maður tekur eftir í þessu frumvarpi sem manni finnst dálítið sérstakt. Afstaða vinstri grænna um lokuð svæði í haust, um að loka svæðum sem virka líka í hina áttina — það er hægt að opna svæði og það hefur verið gert í miklu meiri mæli á síðustu mánuðum, að opna svæði fyrir veiðar, bæði togveiðarfæri og snurvoð en að loka örfáum smáræmum undir kóralsvæði. Á þeirri forsendu var frumvarpið lagt fram í haust að þyrfti — sem hefur reyndar aldrei þurft. Það hefur alltaf mátt loka svæðum á Íslandsmiðum til að friða botn eða fisk. Þetta var gert að mínu mati algerlega á röngum forsendum og menn fengnir til að samþykkja þetta í þinginu bæði af þekkingarleysi og sumir voru náttúrlega í blindni að fylgja sínum ráðherra og sínum flokki með að samþykkja svona.

Ég tók eftir því áðan að í andsvari sínu var hæstv. sjávarútvegsráðherra að tala um hafrannsóknir og fiskifræði. Hann minntist ekki einu einasta orði á fiskifræði sjómanna. Menn töluðu hér um að rétta hlut fiskvinnslu án útgerðar. Það var ekki minnst á það, hvað þá að leggja til að aðskilja veiðar og vinnslu. Breytingar sem sagt, hverjar sem þær eru, eru ekki þóknanlegar sjálfstæðismönnum og alls ekki sjávarútvegsráðherra sem maður á nú raunverulega erfitt með að kalla hæstvirtan í þingsal á meðan hann lýsir því yfir að hann ætli og telji að ekki þurfi að breyta neinu þrátt fyrir álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.