135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

147. mál
[17:59]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála því að fundurinn var sem slíkur trúnaðarfundur varðandi það sem sagt var. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður hefur fylgst með því en í viðtölum við fundarmenn í fréttum, í hádegisfréttum og í kvöldfréttum í gær, og í ályktunum bæjarstjórnar Akraness, sem eru opinber gögn, kom þetta sama fram. Ég hef ekki — ég bið þá hv. þingmann að nefna þau orð — nefnt neitt annað en það sem kom fram í fréttum, að mínu viti engin leyndarmál. Ég minni á orð hv. þm. Guðbjarts Hannessonar í umræðunni í dag, nákvæmlega sömu orðin og hv. þingmaður lét falla á fundinum á Akranesi. Ég bið því hv. þingmann, sem ég hélt að gerði sér grein fyrir alvarleika málsins, gerði sér grein fyrir því að kvótakerfið væri í gjaldþrota — ég hefði frekar vænst þess að hann gengi til liðs við okkur í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði um að það yrði endurskoðað. Hann væri þá sjálfum sér samkvæmur hvað það varðar, mér hefur heyrst, a.m.k. á köflum, að hv. þingmaður tali í þá veruna. Hann hélt opinbera ræðu 17. júní sem hlýtur líka að mega vitna til, hún getur varla verið neitt leyndarmál. Mér þótti það snöfurmannlega gert og hv. þingmaður á hól skilið fyrir að tjá hug sinn tæpitungulaust í þessu máli. Ég hefði frekar viljað að hv. þingmaður slægist í lið með okkur þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um að gengið verði með formlegum hætti í endurskoðun fiskveiðistjórnarlaganna.