135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

147. mál
[18:03]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég var í ræðu minni ekki að fjalla sérstaklega um einstök veiðarfæri en hins vegar bendi ég á að barátta okkar fyrir útfærslu landhelginnar var af tvennum toga. Hún var fyrir því að koma erlendu togskipunum út úr landhelginni, annars vegar í fiskverndarskyni og hins vegar í því skyni að við vildum sjálfir fá að ráða og stjórna auðlindinni. Hugsunin um sjálfbæra þróun var kannski ekki til þá en það var með sama hætti að feður okkar og ömmur vildu umgangast náttúruna.

Varðandi það að bændur græði landið þá er það bara svo að maður vitnar oft til uppruna síns. Ég er að hálfu alinn upp við sjósókn og að hálfu við landbúnað. Ég man að faðir minn gerði sér fyllilega grein fyrir því að ekki væri hægt að ganga á auðlindina nema að ákveðnu marki, bæði til lands og sjávar. Það varð líka að næra hana. Ef maður tekur verður maður líka að vera reiðubúinn að næra.

Sú hugmyndafræði sem liggur að baki Bændur græða landið — ég er andvígur því að það eigi að tala niður til þeirrar hugmyndafræði eins og mér finnst hv. þingmaður gera. Ég held einmitt að það eigi að upphefja þá hugmyndafræði og færa inn sem víðast. Hana þarf að útfæra eftir þeim aðstæðum sem gerast á hverjum stað. En þessi nálgun, þessi nærfærna nálgun við nýtingu auðlindarinnar er sú sem ég tel að við þurfum að lyfta upp og hafa í hávegum. Þess vegna leggjum við þunga áherslu á (Forseti hringir.) að þeir sem eru í nánustu snertingu við auðlindina og nýta hana skuli líka fá að taka þátt í rannsaka hana og bera ábyrgð á henni.