135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

147. mál
[18:10]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þetta hefur verið athyglisverð umræða sem hér hefur farið fram í dag um sjávarútvegsmál og gerist ekki of oft núorðið, að mér finnst, að menn fari í efnislegar umræður um þennan málaflokk. Hann var stundum talsvert fyrirferðarmeiri í umræðum hér á árum áður en aðstæðurnar eru náttúrlega slíkar í dag að það er eiginlega mjög sérkennilegt ef Alþingi lætur ekki þessi mál til sín taka og það með myndugum hætti á þessu þingi og á næstu árum.

Mér telst svo til að hér hafi a.m.k. þrír stjórnarsinnar blandað sér í umræðuna, ef ekki með ræðum þá með andsvörum, og af þeim var hæstv. sjávarútvegsráðherra einna hógværastur, einna málefnalegastur vil ég eiginlega segja. Mér fundust innlegg þeirra hv. þingmanna Marðar Árnasonar, með hvers nærveru við erum heiðruð á Alþingi þessa dagana, og Jóns Gunnarssonar satt best að segja ekki rismiklar. Það var komið í ræðupúlt og menn höfðu allt á hornum sér gagnvart því frumvarpi og þeim málatilbúnaði sem hér er reifaður, skömmuðust út í það að tillögur um hvernig breyta ætti fiskveiðistjórnarkerfinu væru ekki algerlega útskýrðar í einstökum atriðum án þess að tala nokkurn skapaðan hlut um hvað þeir vildu sjálfir.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson svaraði þessu reyndar ágætlega og útlistaði það sem málið ber með sér, að við erum að leggja til og bjóða upp á þverpólitíska endurskoðun, þverpólitíska þátttöku í endurskoðun á fiskveiðilöggjöfinni, af því að við teljum kominn tíma á slíka vinnu og þó fyrr hefði verið. Það hefði verið fróðlegt að heyra frá hv. þm. Merði Árnasyni, sem blandaði sér á þennan hátt í umræðuna einn þingmanna frá Samfylkingurinni, ef ég veit rétt, enn sem komið er, hvað Samfylkingin hyggst fyrir í þessum efnum. Það má væntanlega spyrja á móti. Samfylkingin situr í þessari ríkisstjórn, ber ábyrgð á henni, ber ábyrgð á sjávarútvegsráðherra, ber ábyrgð á viðbrögðum sjávarútvegsráðherra við niðurstöðu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna, svo dæmi sé tekið, og hlýtur að hafa einhverjar meiningar sjálf um það hvað hún vill eða vill ekki. Eða er Samfylkingin sátt við að sjávarútvegsráðherra setji undir sig hausinn og boði í raun og veru ekkert annað en algerlega óbreytta kvótastefnu frá dögum Framsóknarflokksins og Halldórs Ásgrímssonar og samstarfs í fyrri ríkisstjórn við Sjálfstæðisflokkinn?

Það eru tíu ár síðan síðast var lagt af stað og reynt að efna í einhvers konar heildarendurskoðun á sjávarútvegsstefnunni. Það er ágætt að rifja það upp að fyrir kosningar 1999 lofuðu þáverandi stjórnarflokkar, undir þunganum af mikilli og harðri umræðu um sjávarútvegsmál og megnri óánægju um ástand mála, þjóðarsátt um sjávarútvegsstefnu. Þeir lofuðu þjóðarsátt um sjávarútvegsstefnu og enginn maður var duglegri við að rifja það upp á árunum sem á eftir fóru en guðfaðir Frjálslynda flokksins, fyrrverandi þingmaður, Sverrir Hermannsson.

Skipuð var nefnd í september 1999 sem átti að fara í þetta verkefni sem hún skilaði af sér á fyrri hluta árs 2001 og hver var útkoman? Hún varð í raun og veru sú að það var heldur hert á kvótakerfinu vegna þess að í framhaldinu var smábátaflotinn þvingaður inn í það líka í áföngum.

Við mótuðum strax á okkar fæðingarskeiði sem flokkur, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, sjávarútvegsstefnu og gengum frá henni endanlega í kjölfar þessa nefndarstarfs og gáfum hana út. Hún hefur gilt síðan og er að mínu mati ekki lakari en hvað annað sem lagt hefur verið á borðið í þessum efnum. Hún er vissulega barn þessa tíma, það eru í henni kaflar núna sem þarfnast augljóslega endurskoðunar, m.a. allt sem sagt er þar um smábátana vegna þess að þá voru aðstæður þeirra öðruvísi. Við höfum fyllt inn í hana með ályktunum síðan á landsfundum og það liggur allt fyrir. Ég bið menn því ósköp einfaldlega að virða framkomin og fyrirliggjandi prentuð og opinber gögn.

Við ætlumst ekki til að þetta endurskoðunarstarf og tilboð um þverpólitíska þátttöku í því fari allt fram á forsendum okkar stefnu. Það er auðvitað eins og hver annar brandari að vera að biðja um slíkt. Það hljóta allir flokkar að koma að borðinu með sínar áherslur — ef þeir hafa þær einhverjar — ef til slíks er efnt. Þannig liggur það. Það er að sjálfsögðu gott og þarflegt og greiðir fyrir slíkri vinnu að það liggi fyrir með sem skýrustum hætti hvernig hver og einn getur séð fyrir sér breytingar í þessum efnum en það klagar ekki meira upp á Vinstri hreyfinguna – grænt framboð en aðra flokka.

Er stefna Samfylkingarinnar um tíu ára fyrningu veiðiheimilda enn óbreytt? Hvað er hún að gera til að reyna að ná henni fram? Allar veiðiheimildir í kjölfarið eiga að fara á opinn leigumarkað, hvernig hyggst Samfylkingin útfæra þá stefnu þannig að hún sem slík stuðli ekki að stóraukinni og enn meiri samþjöppun veiðiheimilda þegar þeir stóru í krafti auðsins og aðgangs að fjármagni fara að yfirbjóða veiðiheimildirnar? Þetta væri allt saman fróðlegt að vita.

Það vill svo til að fyrir um tíu árum var ég talsvert upptekinn af þessum málum og ég gekk meira að segja svo langt að ég setti saman bókarkorn um sjávarútvegsmál þannig að ég verð varla sakaður um það, a.m.k. persónulega sem einstaklingur og stjórnmálamaður, að hafa ekki reynt að gera sæmilega grein fyrir mér í þessum efnum gegnum tíðina, enda eyddi ég miklum tíma í málflutning og rökræður, greinaskrif og bókarskrif um sjávarútvegsmál á löngu skeiði stjórnmálaferils míns. Ég var formaður sjávarútvegsnefndar í mörg ár og lagði heilmikið af mörkum í þessum efnum, en ég hef kannski gert heldur minna af því núna allra síðustu missirin vegna þess einfaldlega að tími minn hefur bundist af öðru.

Ég kíkti aðeins í þetta bókarkorn núna á dögunum og ég verð að segja alveg eins og er að öðrum þræði var ég ánægður með hvað það hefur staðist tímans tönn að mörgu leyti. Að sumu leyti reyndist ég forspár um ýmsa þætti þróunarinnar eins og hún blasti þarna við. Ég var t.d. að bollaleggja um möguleika okkar á því að stórauka verðmætasköpun með vinnslu uppsjávarfiska til manneldis og það hefur margt gengið eftir í þeim efnum. En því miður reyndist ég líka forspár um það að að óbreyttu kvótakerfi mundu verða stórfelldar breytingar í sjávarútvegi, samþjöppun veiðiheimilda, útgerðin yrði einhæfari, við mundum missa fjölbreytnina og það yrði mikil byggðaröskun ef þetta yrði keyrt áfram eins og þá horfði til. Það hefur allt gengið eftir.

Það er kannski dálítið sérkennilegt að biðja virðulegan forseta um leyfi til að vitna í sjálfan sig en ég ætla nú að gera það samt, ef ég má aðeins fara inn í texta í þessari bók þar sem fjallað er um stjórn fiskveiða og það sem ég sá þarna fyrir tíu árum fyrir mér að væru mikilvægustu leiðarljósin í þeim efnum. Þar kemur að því sem gerði mig dapran þegar ég fór að rifja upp þessi skrif, það gerði mig dapran að sjá að öll vandamálin blasa enn við óleyst 10, 12 árum síðar, því miður. Það er orðið heldur verra að eiga við þetta og snúnara eftir að búið er að keyra kerfið lengur áfram og það er lengra gengið í þá átt að færa réttinn burt frá fólkinu í sjávarbyggðunum og valda þeirri miklu röskun sem hið óhefta markaðsvædda sjávarútvegskerfi auðvitað gerir.

Ég leyfði mér að segja þarna að markmið fiskveiðistjórnar ættu að vera:

„a. Að fjölbreytni viðhaldist í útgerð, þ.e. að mismunandi útgerðarhættir, fjölbreytni í stærð skipa og veiðiaðferðum tryggi fjölbreytta þróunarmöguleika og fullnægi þörfum fjölbreyttrar og sérhæfðrar vinnslu.“

Þarna sígur á ógæfuhliðina jafnt og þétt með stefnu í átt til einsleitari útgerðarhátta.

„b. Að stjórnunaraðferðir við veiðarnar eða tímabundin rekstrarskilyrði megi ekki verða einhliða ráðandi um þróun fiskvinnslunnar heldur þróist veiðarnar ekki síður í samræmi við þarfir vinnslunnar. Tilkoma kvótakerfisins og bágborin afkoma landvinnslu hefur tvímælalaust veikt stöðu vinnslunnar til að hafa áhrif á þróun útgerðarhátta í sína þágu.“

Er það ekki veruleikinn að kvótalítil eða kvótalaus fiskvinnsla á sér varla lífsvon?

„c. Að atvinnuhagsmunir og réttarstaða fiskvinnslufólks og sjómanna ásamt hagsmunum byggðarlaganna verða að fá ákveðið vægi í fiskveiði- og sjávarútvegsstefnu framtíðarinnar. Hvorugt þarf að vera í nokkurri andstöðu við markmið um að hámarka afrakstur lífríkisins og hagkvæmni í rekstri.“

Ætli þetta eigi nú ekki enn við eða um hvað eru menn að tala í mótvægisaðgerðahjali sínu eða öðru slíku? Hvað voru menn að ræða uppi á Akranesi í gærkvöldi t.d.?

Ég lagði síðan til eftirfarandi áherslur í sambandi við sjávarútvegsmálin. Mér finnst sumt af því að vísu kannski svolítið hástemmt í dag en læt mig hafa það að vitna í það:

„Að mótuð verði og framkvæmd það sem ég hef kallað landvinnslufullvinnslustefna. Stjórnvöld, sölusamtök, atvinnurekendur, verkalýðshreyfing, hagsmunasamtök, byggðarlög og aðrir aðilar sameinist um slíkar áherslur með hámarks verðmæta- og atvinnusköpun að leiðarljósi.“

Síðan var það talið upp að ákveðinn hluti útgerðarinnar gæti þróast sem stærri og öflugri skip og frystiskip til að gera vinnslu eða veiðar og vinnslu mögulegar á úthafinu og sækja á dýpri mið, búa vel að stórri áhöfn o.s.frv. Minni frystiskip yrðu væntanlega við lýði í einhverjum mæli, t.d. í sérhæfðari veiðum og vinnslu.

„Að veiðar og vinnsla á sjó yrði í vaxandi mæli undanfari frekari vinnslu í landi.“

Þá voru menn talsvert uppteknir af því að mögulega væri hægt að heilfrysta fisk á fjarlægari miðum til frekari fullvinnslu í landi. Sú þróun hefur kannski ekki orðið stórfelld nema þá helst vinnsla á fiski frá Rússlandi.

Ég sá fyrir mér að hefðbundnir ísfisktogarar, einkum þeir stærri, mundu að mestu hverfa á næstu árum, og af hverju? Vegna þess að þar var lengsta úthaldið og þar kom elsta hráefnið að landi, sem ég held að við séum alveg sammála um að svari ekki kröfum tímans í dag, jafnvel þó að menn gerðu allt sem þeir gætu til að hafa meðferð hráefnisins góða um boð en það var ekki óalgengt á sínum tíma að úthald á stórum ísfiskstogurum væri tíu dagar eða jafnvel meira.

„Að minni og miðlungsstór fiskiskip með úthaldstíma að hámarki fjóra til sex daga mundu þjóna mörkuðum og vinnslu með ferskt eða ófrosið hráefni og þessi floti yrði mjög fjölbreyttur hvað stærð og veiðiaðferðir snerti.

Að fiskmarkaðir yrðu efldir“ — og bíðið nú við — „og sú regla lögfest að allur afli sem ekki fer beint til vinnslu innan lands hjá sama aðila fari um viðurkenndan markað þannig að innlendri fiskvinnslu standi jafnan til boða að bjóða í aflann.“

Ef hv. þm. Grétar Mar Jónsson á í einhverjum erfiðleikum með að skilja hvað við eigum við með þessu þá er það ósköp einfalt, að allur afli sem kemur af miðunum til lands og ekki fer í vinnslu hjá sama aðila innan hans eigin fyrirtækis fari yfir á viðurkenndan markað. (Gripið fram í.) Þetta er mjög einfalt í framkvæmd og það eina sem ekki er gert, miðað við það sem ég skil að sé áhersla Frjálslynda flokksins, er að aðili sem er að veiða til að fóðra sína eigin vinnslu þarf ekki að senda aflann yfir á markað, enda held ég að engin þörf sé á því að grípa þannig inn í innri rekstur í einu fyrirtæki.

Ég lagði einnig áherslu á að grunnslóðin yrði nýtt og grundvöllur búsetu í minni byggðarlögum tryggður með þróttmikilli smábáta- og bátaútgerð sem hafi vissan forgang til veiða næst landi. Ég verð að segja alveg eins og er, og það er kannski ekkert merkilegt, að ég er í öllum aðalatriðum sáttur við þessar áherslur, þessi markmið og ég mundi leggja og legg það sama til í dag og ég gerði þarna fyrir tíu árum, vegna þess að vandamálin eru því miður öllsömul óleyst. Nú höfum við bara miklu meiri reynslu að baki í því hvað þetta kerfi óbreytt þýðir.

Ég vil segja að lokum, virðulegur forseti, að nú þekkja menn auðvitað deilur um kvótakerfið og marga fylgifiska þess og hvað það hefur í för með sér en ein mjög alvarleg staðreynd hefur bæst við og blasir við okkur, ekki ný af nálinni að vísu en kannski vegur hún þyngra núna en nokkru sinni fyrr og það er að kerfinu hefur mistekist megintilgangur sinn, meginmarkmið, sem er hvert? Að vernda og byggja upp mikilvægasta nytjastofn Íslandsmiða, þorskinn. Kvótakerfið var sett á hér í þessum sölum í neðri og efri deild í desember 1983 vegna dökkrar skýrslu um ástand þorskstofnsins sem bráðabirgðaráðstöfun í eitt ár af því að menn höfðu margir illan bifur á því að fara þess a leið en töldu ekki annað skárra í boði í bili.

Þegar menn standa frammi fyrir því núna að þetta hefur svo gjörsamlega mistekist, megintilgangurinn með kerfinu, að vernda og byggja upp nytjastofnana, að það hálfa væri nóg, við stöndum verr með þorskinn í dag — ef við treystum á niðurstöður vísindanna sem við höfum kannski ekki annað skárra í höndunum til að gera — en nokkru sinni. Skýrslan síðasta vor var miklu verri en dökka skýrslan vorið 1983. Hvað stendur þá eftir?

Ég spyr líka: Hvað þarf til til þess að menn opni augun og fallist á að fara ofan í saumana á þessum hlutum? Þarf þorskstofninn algerlega að hrynja, þarf fyrst að útrýma þorskinum á Íslandsmiðum til þess að menn fallist á að það sé kannski eitthvað að, að við þyrftum kannski eitthvað að fara að gá að okkur? Væntanlega dugar heldur ekki álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna eins og þegar má ráða af viðbrögðum ríkisstjórnarinnar við því.

Ég tel að sú tillaga eða það frumvarp sem við flytjum hér sé málefnalegt, það sé jákvætt (Forseti hringir.) og þarft innlegg í þessa umræðu og það væri viturlegt að menn færu að okkar ráðum, þæðu tilboð okkar um að hefja heildstæða (Forseti hringir.) endurskoðun á sjávarútvegsstefnunni.