135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

147. mál
[18:30]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er óþarfi að vera í vondu skapi þótt bent sé á að þau 11 atriði sett eru fram sem markmið þessarar endurskoðunar stangast hvert á við annað. Það er ósköp einfalt. Þegar spurt er að því, í því ljósi, hver stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er þá er líka óþarft að bregðast illa við. Í þeirri stefnu rekst líka hvað á annars horn (Gripið fram í: Hvernig?) af ástæðum sem of stuttur tími er til að fara út í núna.

Ég vil hins vegar segja að það er ekki meginatriðið. Meginatriðið í málinu kemur fram í því frumvarpi sem átti að mæla fyrir á eftir þessu frumvarpi og var sett fram sem viðbragð við atburði sem sýnir að kvótakerfið, það kerfi sem menn settu niður á sínum tíma, er að renna sitt skeið og stenst ekki lengur.

Ég rakti áðan þær aðstæður sem við stöndum frammi fyrir, annars vegar skerðing á þorskaflaheimildum sem nú er orðin staðreynd og hins vegar úrskurður mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Við þurfum núna að fara saman í að mæta þessu tvennu. Við þurfum að gera það á þann veg sem er samkvæmur og svarar bæði líffræðilegu spurningunni, spurningunni um sóknina, og líka spurningum um mannréttindi.

Að gefnu tilefni er rétt að upplýsa hv. þm. Steingrím J. Sigfússon um að Samfylkingin hefur enn sömu stefnu og hún hefur haft áður í öll þau sjö ár sem liðin eru síðan hún var stofnuð, um ótvíræða þjóðareign á aflanum í sjónum og að úthluta eigi afnotaheimildum að honum gegn gjaldi. Þannig sköpum við það réttlæti og jafnræði sem mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur kallað eftir.