135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

147. mál
[18:41]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Er þá hv. þm. Grétar Mar Jónsson ánægður með ástandið eins og það er í dag? Telur hann það betra? Eru sjómenn betur settir við núverandi ástand? Ég held að það sé sanngjarnt að maður geri kröfu til þess að hv. þingmaður svari því, ráðist ekki bara á okkur og tillögur okkar og hugmyndir sem við leggjum fram í góðri trú, í þeirri trú að það mundi bæta úr ástandinu frá því sem nú er. Er þetta þá bara allt eða ekkert? Mér finnst að hv. þingmaður skulda okkur svör við því.

Ég held að það sé ekki þannig, þótt það sé alveg rétt að í gámaviðskiptunum taki menn mið af markaðsverði og geri upp við sjómenn á þeim grunni, að það sé hið sama og að innlenda fiskvinnslan hafi raunverulega möguleika á að ná í hráefnið. Það þýðir ekki það sama þótt menn hringi og spyrji: Hvað fór ýsan á, hvað fór flatfiskurinn á o.s.frv. á markað og geri upp við sjómennina á þeim grunni. En þetta gætum við skoðað betur og kann að taka breytingum, m.a. eftir því hvaða framboð er á hráefni.

Það er alveg rétt að það er mikill aðstöðumunur á fyrirtæki sem á umtalsverðar veiðiheimildir og landar inn í vinnsluna hjá sér og keppir svo á markaði um viðbótarhráefni við aðila sem hafa engar veiðiheimildir. Það er sérstaklega mikill aðstöðumunur ef hinn fyrri aðili fékk sínum veiðiheimildum úthlutað í upphafi án endurgjalds og þær eru fullkomlega afskrifaðar hjá honum og hann hefur þann gríðarlega aðstöðumun sem í því er fólginn. Það þarf hins vegar ekki að vera mikill aðstöðumunur ef slíkur aðili er nýbúinn að fjárfesta í veiðiheimildunum. Það verður auðvitað að hafa það í huga þegar kemur að rekstrarbyrðinni hjá fyrirtækinu.

Auðvitað er þetta stanslaust viðfangsefni, að fást við að reyna að setja sanngjarnar leikreglur sem geri mönnum kleift að starfa í þessari grein á jafnræðisforsendum. Um það snýst m.a. það sem verður á dagskrá næst, ef ég veit rétt. Ætli það sé ekki rétt að maður fari að þagna til að gefa þeirri umræðu kost á að komast að.