135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

stjórn fiskveiða.

147. mál
[18:57]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef ekkert umboð til að gefa einhverjar yfirlýsingar fyrir hönd Samfylkingarinnar en ég get sagt fyrir sjálfan mig að ég mun mæla með því að tekið verði mark á þessum úrskurði mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Það verður svo að koma í ljós hvort tekið verður mark á því.

Ég vek enn og aftur athygli á því að Samfylkingin gekk til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn. Ég vek athygli á því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki verið til viðtals um að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu í neinum grundvallaratriðum. Ég vek líka athygli á því að ekki er meiri hluti í þinginu fyrir verulegum breytingum. Ég hef hins vegar trú á því af góðum kynnum mínum við þingmenn Sjálfstæðisflokksins að þeir muni hlusta og taka skynsamlega á þessum málum eins og langflestum öðrum, enda erum við í samstarfi, ekki til að sprengja eitt eða neitt, það kemur auðvitað ekki til greina að sprengja eitt eða neitt, heldur flytjum við okkar mál og svo hlustum við á hvað samherjar okkar í Sjálfstæðisflokknum segja. Ég hef ekki neinar áhyggjur af niðurstöðu þessa máls og bind góðar vonir við að menn bregðist við af skynsemi eins og okkar er von og vísa.