135. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2008.

störf án staðsetningar -- kostnaður við Kárahnjúkavirkjun.

[13:36]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þetta verður æ undarlegra með ríkisstjórnina og hina meintu stefnu hennar um að auglýsa störf án staðsetningar í því skyni að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni þegar upp koma dæmin hvert á fætur öðru um að alveg hið gagnstæða er svo gert. Ég tók það upp í gær að þau undarlegu tíðindi urðu þegar ferðamálastjóri var skipaður og einn umsækjandi, mjög hæfur, sótti um starfið og bauðst til að gegna því frá starfsstöð Ferðamálastofu á Akureyri. Hann fékk tilkynningu nokkrum vikum áður en starfið var veitt og það frá ráðningarskrifstofunni, Capacent, um að ráðuneytið hefði tekið þá ákvörðun að starfið skyldi vera í Reykjavík. Það var ráðningarskrifstofa úti í bæ sem bar umsækjandanum þá niðurstöðu ráðuneytisins að starfið ætti að vera í Reykjavík. Hæstv. iðnaðarráðherra, byggðamála- og ferðamálaráðherra varði sig í gær með því að hann hefði ekkert um málið vitað og þetta hefði komið honum í opna skjöldu og hann frétt af þessu eftir á. Engu að síður er það staðreynd að samtök sveitarstjórnarmanna fyrir norðan heiðar sendu iðnaðarráðherra strax 10. desember erindi út af málinu og síðan 21. desember, erindi til þeirra allra, iðnaðar-, samgöngu- og forsætisráðherra þannig að þeir lesa ekki vel póstinn sinn, hæstv. ráðherrar. Svo kemur hv. þm. Bjarni Harðarson hér með þetta skringilega dæmi og þá fer maður að spyrja: Er þetta bara sýndarmennska? Er þetta bara til áróðurs út á við sem menn flagga þessari stefnu um að auglýsa störf án staðsetningar ef ekkert er svo að breytast, ef ráðuneytin vita ekki af þessu og vinna þvert gegn þessari stefnu ríkisstjórnarinnar og hún sjálf jafnvel líka. Þá er ekki mikið fyrir þetta gefandi.

Ég held að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson verði að gera betur en svara því til að hér séu merk tímamót og stórtíðindi á ferðinni þegar staðreyndin er sú að það er bókstaflega ekkert að gerast í þessum málum hjá ríkisstjórninni.