135. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2008.

störf án staðsetningar -- kostnaður við Kárahnjúkavirkjun.

[13:38]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Hérna er þörf umræða á ferðinni. En þrátt fyrir allt hefur þróunin verið sú að ríkisvaldið hefur lagt mikla áherslu á að fjölga störfum úti á landi. Við getum nefnt dæmi um það, t.d. að sjávarútvegsráðuneytið hefur fjölgað mikið störfum úti á landi undir þeim stofnunum sem það ræður yfir og er þá átt við Matís, Hafró og Fiskistofu. Þá hefur störfum undirstofnana menntamálaráðuneytisins líka verið fjölgað mikið úti á landi og er það ekki síst tilkomið vegna mikillar aukningar á kennslu á háskólastigi á undanförnum árum á háskólasetrum og þá að sjálfsögðu við Háskólann á Akureyri. Til eru ótal dæmi um þetta, m.a. af undirstofnunum iðnaðarráðuneytisins.

Það sem ekki er síður mikilvægt í þessu er að ýmis fyrirtæki sem ekki eru ríkisfyrirtæki, fyrirtæki á almennum markaði skilgreini störf sín líka sem störf án staðsetningar. Það er ánægjulegt að mörg þeirra hafa gert það og eru bankarnir mjög góð fyrirmynd í þeim efnum en smærri fyrirtæki hafa líka gert þetta, þ.e. skilgreint störf sín án staðsetningar. Í mínum huga er það alveg skýrt og ég held að það sé skilningur allra og annað sé bara nánast útúrsnúningur, að þegar talað er um störf án staðsetningar þá er verið að tala um að fjölga störfum úti á landi, að fólk úti á landsbyggðinni hafi möguleika á að taka að sér störf fyrir hönd ýmissa ríkisstofnana án þess að flytja sig um set. Það er algerlega skýrt enda hefur langmesta fjölgunin orðið hér og þess vegna veitir ekkert af því að fylgja þessari hugsun og stefnu eftir og ég held við hljótum að geta sammælst um það að þetta er hugsunin.