135. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2008.

störf án staðsetningar -- kostnaður við Kárahnjúkavirkjun.

[13:40]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeim áhuga sem þingmenn sýna þessu máli, þ.e. störfum án staðsetningar, og áhuga þeirra á verkefninu. Þetta verkefni er að fara af stað og það er rétt núna að byrja að sjást í stjórnsýslunni og við ákvörðunartöku og starfshætti hjá ríkinu að þessi stefna sé farin í gang. Ég er sannfærð um það og veit að þetta mun fara á mikla ferð og mun móta starfshætti ríkisins allverulega á næstu árum og næstu mánuðum.

Virðulegi forseti. Það er nefnilega ekki eins og hv. þm. Steingrímur Jóhann Sigfússon segir að það sé ekkert að gerast í þessum efnum vegna þess að það er svo sannarlega eitthvað að gerast og á næstu dögum tekur til starfa sameiginlegur hópur, verkefnishópur fjármála- og iðnaðarráðuneytis til þess að fylgja eftir tillögum sem starfsmannaskrifstofan hefur lagt fram um störf án staðsetningar. Þessi hópur er að fara af stað til að skilgreina þetta nákvæmlega svo að verkefnið geti farið af stað af þeim krafti sem ætlað er. Það er því svo sannarlega eitthvað að gerast í þessum efnum. (Gripið fram í.) Hv. þingmanni er mikið í mun að eiga við mig samtal um þetta mál vegna þess að þessi staðreynd virðist eitthvað fara í taugarnar á honum en svona er þetta, hv. þingmaður, og við getum rætt þetta þegar ég er komin úr stólnum.

Virðulegi forseti. Það er rangt sem hér kemur fram að þetta eigi að leiða til þess að störf flytjist til höfuðborgarsvæðisins vegna þess að þessu er ætlað, og það kom skýrt fram þegar þingsályktunartillaga þessa efnis lá fyrir þinginu, að fjölga störfum úti á landsbyggðinni, fjölbreyttum störfum. (BjH: Hvað þýðir þetta …?) Þetta starf og umrædd bókun, virðulegi forseti, kemur mér dálítið á óvart og er á skjön við yfirlýsta stefnu okkar og ég ætla ekkert að breiða yfir þá staðreynd og þetta er eitthvað sem við verðum að fara yfir. Við verðum að fara yfir það hvernig þessi bókun er til komin vegna þess að þetta er ekki í takt við áætlunina um störf án staðsetningar að mínu viti.