135. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2008.

störf án staðsetningar -- kostnaður við Kárahnjúkavirkjun.

[13:42]
Hlusta

Árni Johnsen (S):

Herra forseti. Því miður eru mörg dæmin fyrir því að stjórnvöld standa ekki við fyrirheit um styrkingu landsbyggðar og auðvitað væri illt ef svo færi að ráðamenn þjóðarinnar sem eiga að véla um Vatnajökulsþjóðgarð mundu virka eins og erlendir skiptinemar á fyrsta degi á Íslandi, þ.e. þeir hafa bara komið til Reykjavíkur og sjá ekkert annað. Þarna þarf að stokka upp eins og til að mynda kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni.

Það er eitt sem kemur ekki til greina í sambandi við Vatnajökulsþjóðgarð, að mínu mati, það er að framkvæmdastjórnin sé staðsett á höfuðborgarsvæðinu. Hún á auðvitað að vera staðsett heima í héraði. Það er reiknað með 400 þúsund ferðamönnum í Vatnajökulsþjóðgarð í fyrstu lotu og helmingi þeirra er ætlað að sækja heim suðurhluta svæðisins. Þess vegna er það augljóst mál að framkvæmdastjórn Vatnajökulsþjóðgarðs hlýtur að vera staðsett á Hornafirði þó að það þurfi að gera það í góðri samvinnu við alla aðila sem koma að málum norðan Hornafjarðar. Þetta er verkefni sem skiptir miklu máli og hefur verið lagt fram af miklum metnaði. Þetta er stórt verkefni og það á að treysta heimamönnum fyrir því að sinna því. Þeir standa nær því og skynja það að mörgu leyti betur en margir aðrir og geta ræktað garðinn betur en skilaboð að sunnan, eins og sagt er.