135. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2008.

störf án staðsetningar -- kostnaður við Kárahnjúkavirkjun.

[13:44]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að þessi hugmynd um störf án staðsetningar er mér mjög að skapi og ég var ánægður með að sjá það í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að það ætti að fylgja því eftir. Reyndin hefur verið sú að hingað til hefur stefnan verið allt önnur. Í gær fór fram umræða um það að ferðamálastjóri skyldi ekki vera staddur á Akureyri og mér þótti hálfvandræðalegt að hlusta á svör hæstv. iðnaðarráðherra þegar hann lýsti því yfir að hann hefði einfaldlega ekki vitað að svo væri.

Það má líka benda á að staðsetning veiðimálastjóra á Akureyri hefur verið flutt í burtu. Ég tel að staða framkvæmdastjóra Vatnajökulsþjóðgarðs eigi að vera staðsett í einu af þeim átta sveitarfélögum sem eiga land að þjóðgarðinum en alls ekki á höfuðborgarsvæðinu.

Það kom fram í haust að Samfylkingin stæði ekki við gefin kosningaloforð vegna þess að þau hefðu eingöngu verið gefin með það í huga ef hér tæki við vinstri stjórn. Ég vona samt að orð hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur verði að veruleika og ný ríkisstjórn muni standa sig mun betur í þessum efnum en hún hefur gert hingað til.