135. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2008.

störf án staðsetningar -- kostnaður við Kárahnjúkavirkjun.

[13:45]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem farið hefur fram um þetta mál sem er í mínum huga mjög brýnt hagsmunamál fyrir Skaftfellinga og aðra nærsveitunga Vatnajökuls.

Varðandi þá fullyrðingu hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur að það væri eitthvað að gerast í þessum málum, þá er það vissulega svo og ég vona svo sannarlega að það séu jákvæðari hlutir en eru að gerast varðandi umrædda stöðu því í mínum huga er þar tvímælalaust verið að nota hugtakið „störf án staðsetningar“ til þess að draga embættisstörf til Reykjavíkur, en ekki til að dreifa þeim um landið. Við getum tekið sem dæmi ef sýslumannsembættið á Höfn væri auglýst án staðsetningar, möguleikarnir á því að Hornfirðingur fengi það starf frekar en Reykvíkingur eru 1 á móti 100 bara út frá þeirri einföldu staðreynd að það sé svona jafnhæft fólk búandi í þessum landsfjórðungum og þá eru u.þ.b. 100 sinnum fleiri búandi hér á höfuðborgarsvæðinu en þar.

Hér er tvímælalaust verið að nota hugtakið til þess að staðsetja starf sem allir höfðu hugað, bæði þingheimur og við sem störfum að málefnum kjördæmisins, og við vissum ekki annað en að yrði í kjördæminu, það er verið að nota það til þess að draga starfið suður. Að því leyti til er þetta mál verra en það mál sem byggðamálaráðherra kom hér til varnar fyrir í gær og gat þá borið fyrir sig að Capacent Gallup hefði eitt komið að því og hann vissi ekkert um málið. Hér er um að ræða að formaður stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs er aðstoðarmaður hæstv. umhverfisráðherra þannig að hin pólitísku tengsl við Samfylkinguna eru bein í þessu máli og hún getur ekki fríað sig af því. Það skiptir mjög miklu máli að í þessu hefur sveitarfélögunum (Forseti hringir.) sem eiga þarna land að verið att saman þannig (Forseti hringir.) og þá sé hægt að brýna á þeim að þau hafi ekki náð samstöðu um þetta. Það er vitaskuld ríkisins að ákveða hvar þetta starf á að vera.