135. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2008.

störf án staðsetningar -- kostnaður við Kárahnjúkavirkjun.

[13:50]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Í Viðskiptablaðinu 29. janúar sl. er upplýst að Kárahnjúkavirkjun gæti með virðisaukaskatti farið í 200 milljarða kr., nær 100% yfir upphaflegri áætlun. Það er vissulega himinn og haf á milli þess sem forstjóri Landsvirkjunar sagði í viðtali við Morgunblaðið 9. desember sl., að þessi framkvæmd muni fara 5–6% fram úr áætlun og, virðulegi forseti, það væri innan skekkjumarka sem búast mætti við í framkvæmd af þessari stærðargráðu.

Því er það að ég tek þetta hér upp að hinn 16. október sl. var samþykkt beiðni þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um skýrslu iðnaðarráðherra um kostnað við Kárahnjúkavirkjun. Erindi mitt í þennan ræðustól er að spyrja hæstv. forseta hvað líði þeirri skýrslu. Samkvæmt þingsköpum, nýjum og gömlum, skal svar ráðherra við skýrslubeiðni liggja fyrir innan tíu vikna frá því að hún er samþykkt. Nú eru liðnar fimm vikur fram yfir þann tímafrest sem þingsköpin gefa og því spyr ég hvað svarinu eða skýrslunni líði.

Það er mjög mikilvægt að fá greinargott yfirlit yfir heildarkostnað við þessa stærstu og umdeildustu framkvæmd Íslandssögunnar. Í upphaflegri kostnaðaráætlun var gert ráð fyrir að þetta mundi kosta innan við 100 milljarða, tilboð og verksamningar voru 15–20 milljörðum undir þeirri fjárhæð. Nú er ljóst, samkvæmt úttekt Viðskiptablaðsins, að kostnaðurinn stefnir í 168 milljarða kr. án virðisaukaskatts eða 79% umfram áætlun. (Forseti hringir.) Það er nauðsynlegt, herra forseti, að fá botn í þessar tölur.