135. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2008.

stjórnarskipunarlög.

134. mál
[14:27]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þarf ekki að lesa ræður fyrrverandi þingmanns Bryndísar Hlöðversdóttur um bráðabirgðalagaheimildir. Ég get bara flett upp í mínum eigin ræðum. Ég hef flutt bæði ræður og þingmál sem varða þetta hið sama.

Að því er varðar síðan það að víkjast undan eða inn í ábyrgð þá er það bara svo að ég vík mér aldrei undan ábyrgð. Ég var ekki á þeim ríkisstjórnarfundi þar sem þetta var ákveðið. Ég hins vegar gaf þau skilaboð alveg skýrt til ríkisstjórnarinnar að ég styddi þetta alveg eins og aðrir. Það er fráleitt að halda því fram að viðskiptaráðherra hafi af einhverjum kjördæmahagsmunum verið að beita sér fyrir þessu. Þetta var sameiginleg ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Þetta var umdeilanleg ákvörðun og sjálfsagt að hv. þingmaður deili á hana. En hann getur ekki deilt á hæstv. viðskiptaráðherra umfram okkur hina sem að þessu stóðu fullkomlega.

Ég vil svo geta þess, af því að við erum nú sammála um það hvernig eigi að fara með breytingar á stjórnarskránni, að þetta var rætt í stjórnarskrárnefndinni sem sett var á stofn á síðasta kjörtímabili og situr formlega enn þá. Þar náðu menn samstöðu um þetta ákvæði. Ég tel að þessi tillaga sem er meðal annars flutt af hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni sem sat í þeirri nefnd sé að stofni til upp runnin úr því sem að lokum varð eina formlega tillagan sem frá okkur gekk til þáverandi ríkisstjórnar.

Mörg rök og sannfærandi er hægt að flytja fyrir þessari skipan mála. Ég tel alveg fullkomlega eðlilegt að þegar Alþingi og hinir kjörnu fulltrúar hafa samþykkt breytingar á þessu að þá sé það þjóðin sem upphaflega samþykkti stjórnarskrána, stjórnarskrárgjafinn sem taki hina endanlegu afstöðu til breytinga á stjórnarskránni.

Ég vil svo líka segja, til þess að öllu sé til haga haldið, að þó að ég sé þeirrar skoðunar að það eigi að skilja á milli framkvæmdar- og löggjafarvalds með þeim hætti að ráðherrar segi tímabundið af sér þingmennsku þá vil ég bara að það komi fram að um þetta eru skiptar skoðanir í mörgum flokkum, þar á meðal mínum. Þetta þýðir ekki, þó (Forseti hringir.) ég tali svona, að Samfylkingin sé þessarar skoðunar. Ég var að minnsta kosti á sínum tíma í minni hluta varðandi þetta tiltekna mál.