135. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2008.

stjórnarskipunarlög.

134. mál
[14:43]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka forsætisráðherra fyrir merka ræðu. Ég ætla ekki að fjalla um það efnislega sem hér er á mælendaskrá nema það sem hæstv. forsætisráðherra sagði fyrst og síðast þegar hann safnaði nánast saman þeim frumvörpum sem hér eru á dagskrá og öðrum þeim sem flutt hafa verið til stjórnskipunarlaga. Hann dró þau svo í þann dilk að þau yrðu að bíða þangað til stjórnarskrárnefnd þóknaðist í fyrsta lagi að taka til starfa eða þá að hætta störfum og ný yrði skipuð. Í lokin sagðist hæstv. forsætisráðherra vera að íhuga hvort hann ætti að tala við formenn annarra flokka um að halda starfinu áfram. Það er kannski veruleikinn sem blasir við okkur, að svona sé þetta en það er ekki samkvæmt stjórnarskránni. Þar er formönnum flokka ekki falið neitt sérstakt hlutverk í sambandi við breytingar á stjórnarskrá. Þar er ekki getið um sérstakt löggjafar- eða stjórnarskrárgjafarstig sem heitir stjórnarskrárnefnd sem formenn flokka véli um, heldur er það eins og við þekkjum öll einfaldlega þannig að þingið samþykkir tillögur og síðan er farið með þær með tilteknum hætti. Aðilar málsins eru annars vegar Alþingi Íslendinga og hins vegar kjósendur í landinu.

Ég vil beina því til forsætisráðherra að losa um þá stíflu sem orðið hefur í þörfum og nauðsynlegum breytingum á stjórnarskrá vegna deilna um tiltekin efni. Ég nefni að menn eru alveg sammála um ákveðnar breytingar á ákvæðum stjórnarskrár um dómskerfið. Ég nefni íslenska tungu sem er baráttumál hæstv. menntamálaráðherra og mitt og fleiri breytingar, m.a. sumar þeirra sem hér eru til umræðu (Forseti hringir.) — að láta ekki þessar þörfu breytingar bíða eftir því að togstreita formanna stjórnmálaflokkanna um aðrar breytingar á stjórnarskrá leysist.