135. löggjafarþing — 55. fundur,  30. jan. 2008.

stjórnarskipunarlög.

134. mál
[14:51]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka undir með hæstv. forsætisráðherra að umræður á Alþingi um stjórnarskrána okkar eru gagnlegar og mér hefur gjarnan fundist þær gagnlegri og innihaldsríkari og um margt skemmtilegri en margar aðrar umræður sem hér fara fram. Mig langar því til að leggja orð í belg um þetta ágæta frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson flytur ásamt tveimur hv. þingmönnum úr þingflokki Frjálslynda flokksins.

Í frumvarpinu eru lagðar til þrjár breytingar á stjórnarskránni eins og komið hefur fram. Í fyrsta lagi að 28. gr. stjórnarskrárinnar, sem fjallar um setningu bráðabirgðalaga, verði felld brott. Í öðru lagi að ráðherrar gegni ekki þingmennsku samhliða ráðherradómi sínum og síðan að tekið verði upp annað fyrirkomulag, þjóðaratkvæðagreiðsla, við breytingar á stjórnarskránni. Ég ætla í stuttu máli að reifa sjónarmið mín varðandi þessar þrjár tillögur sem hér liggja fyrir og byrja kannski á þeirri tillögu að ákvæði stjórnarskrár um setningu bráðabirgðalaga verði felld úr gildi.

Ég er ekki hlynntur því að ákvæði 28. gr. verði fellt út úr stjórnarskránni okkar. Það er ljóst að slík lög, þ.e. bráðabirgðalög, verða einungis sett þegar brýna nauðsyn ber til og er það samkvæmt ákvæðinu forseti Íslands sem gefur út bráðabirgðalög en ekki ráðherrarnir, a.m.k. ekki formlega, eins og kom fram hjá flutningsmönnum, en það er auðvitað gert að frumkvæði ráðherra og ríkisstjórnar. Í umræðum um bráðabirgðalög á Alþingi, bæði meðan ég hef setið hér og mörg ár aftur í tímann, hafa menn einkum deilt um það hvort ástæða hafi verið til þess í hvert skipti að setja bráðabirgðalög, hvort nauðsyn hafi verið svo brýn að til þess hefði þurft að koma. Menn hafa deilt um hvort þau skilyrði hafi verið uppfyllt og ekki bara í tengslum við það mál sem hér hefur verið nefnt. Mönnum er vafalaust í fersku minni þegar sett voru bráðabirgðalög á kjaradeilur í tíð vinstri stjórnar árið 1990 sem olli miklum úlfaþyt. Ég hygg að ávallt eða langoftast deili menn um hvort skilyrði stjórnarskrárinnar, um brýna nauðsyn, séu uppfyllt í hvert skipti sem stjórnvöld og forseti grípa til þessarar heimildar sinnar.

Ég hygg að almennt, og sérstaklega í seinni tíð, hafi stjórnvöld farið vel með þessa heimild sína. Mjög hefur dregið úr setningu bráðabirgðalaga á síðustu áratugum eða allt frá árinu 1991. Menn mega síðan ekki gleyma því í þessu sambandi og í þessari umræðu að þrátt fyrir að í 28. gr. stjórnarskrárinnar sé mælt fyrir um heimild til setningar bráðabirgðalaga er í ákvæðinu mjög mikilvægur varnagli. Sá varnagli er sleginn með því að í ákvæðinu er mælt fyrir um að bráðabirgðalög skuli ætíð lögð fyrir Alþingi strax og það kemur saman á ný til samþykktar eða synjunar. Þetta ákvæði er náttúrlega sett inn í 28. gr. til að koma í veg fyrir að forseti, í umboði ráðherra, eða stjórnvöld misnoti þá heimild sem 28. gr. veitir þeim. Menn þurfa því ekki að hafa áhyggjur af því að stjórnvöld hafi heimild til að ganga fram eftir því sem þau vilja í þessu efni vegna þess að varnaglinn tryggir aðkomu Alþingis að slíkri lagasetningu. Mér finnst sjálfsagt að þessi heimild sé áfram fyrir hendi í stjórnarskránni enda geta komið upp aðstæður þar sem nauðsynlegt er að beita henni. Við slíkar aðstæður tel ég heppilegra að heimildin sé til staðar frekar en ekki. Ég held að hæstv. forsætisráðherra hafi nefnt ágætisdæmi frá árinu 2001 þegar ríkisstjórnin og forseti settu bráðabirgðalög í tengslum við árásirnar á tvíburaturnana.

Í öðru lagi er í frumvarpinu lagt til að ráðherrar afsali sér þingmennsku eða ráðherrar gegni ekki þingmennsku meðan þeir gegna ráðherradómi, hafi eftir sem áður málfrelsi á Alþingi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt. Ég vil nefna tvö atriði í tengslum við þessa tillögu. Í fyrsta lagi mæla praktísk rök gegn henni. Það er fyrirséð að verði þingmönnum fjölgað um 12, ef við miðum við að ráðherrarnir verði áfram 12, mun launakostnaður ríkisins aukast verulega. Ætli launakostnaður muni ekki aukast um u.þ.b. 80 millj. kr. á ári vegna hinna nýju 12 þingmanna sem þá munu taka hér sæti. Þar við bætist kostnaður vegna aðstöðu fyrir hina nýju þingmenn. Útvega þarf þeim skrifstofur og tölvubúnað og síðan er fyrirséð að gera þyrfti breytingar á Alþingishúsinu til að koma þessum hópi fyrir með sómasamlegum hætti. Þetta eru praktísk rök gegn tillögunni.

Hitt atriðið sem ég vildi nefna skiptir kannski meira máli. Ég tel að sú hugmynd sem birtist í 2. gr. frumvarpsins sé til þess fallin að veikja stöðu stjórnarandstöðu á Alþingi á hverjum tími. Ef við miðum við stöðuna á þinginu eins og hún er núna þá eru hér Sjálfstæðisflokkur og Samfylking í ríkisstjórn og fara með meiri hluta á þinginu, Sjálfstæðisflokkur með 25 þingmenn, Samfylking með 18, samtals 43 þingmenn. Ef frumvarpið mundi ná fram að ganga mundi þingmönnum stjórnarliðsins fjölga úr 43 í 55 þannig að fulltrúar þessara tveggja flokka hér á Alþingi og í nefndum yrðu 55 á móti 20 þingmönnum stjórnarandstöðunnar. Þrátt fyrir að ég sé í sjálfu sér enginn talsmaður þeirrar stjórnarandstöðu sem nú situr á þingi tel ég óheppilegt að fara út í breytingar sem þessar. Hvað sem um stjórnarandstöðuna sem nú situr á þingi má segja gegnir stjórnarandstaða hverju sinni mikilvægu hlutverki í þjóðfélagi okkar og hér á þinginu til að veita meiri hlutanum aðhald. En ég held að við getum alveg verið sammála um það, ég og hv. þingmaður, að nauðsynlegt sé að ræða hvort ástæða sé til að styrkja og efla þingið. Við getum verið sammála um að nauðsynlegt sé að gera það, það er bara spurning með hvaða hætti það verður gert.

Þingmenn hafa á þessu kjörtímabili komið fram með ýmsar hugmyndir í þá áttina sem ég tel allrar athygli verðar. Við ræddum í tengslum við fjárlög ýmsar breytingar sem ættu að bæta starfsaðstöðu þingmanna, sérstaklega landsbyggðarþingmanna, og einnig hafa einstaka þingmenn bent á hluti sem ættu að styrkja og efla starf þingmannsins og þingsins og aðkomu þess að ýmsum málum, bæði hvað varðar löggjafarsetninguna og ekki síður aðkomu þingmanna að innleiðingu tilskipana og reglugerða Evrópusambandsins í íslenskan rétt. Þetta eru allt hugmyndir sem við skulum ræða en ég er ekki viss um að sú leið sem farin er í 2. gr. þessa frumvarps sé til þess fallin að styrkja og efla þingið, m.a. með hliðsjón af því sem ég sagði um stöðu stjórnarandstöðunnar gagnvart þessum tillögum.

Hv. þingmaður heyrði að ég leggst gegn þeim breytingartillögum sem fram koma í 1. og 2. gr. frumvarpsins. Um 3. gr. má kannski segja að andstaða mín sé daufari. Ég er reiðubúinn að ræða hvort rétt sé að breyta því fyrirkomulagi sem við höfum nú hvað varðar breytingu á stjórnarskrá og færa slíkar breytingar í átt að þjóðaratkvæðagreiðslu umfram það sem nú er. Ég veit þó ekki betur en núverandi fyrirkomulag hafi gefist ágætlega. Ég fæ ekki séð að það sé neitt sem kalli á breytingar á því. Ég fæ a.m.k. ekki séð að brýn nauðsyn kalli á að við breytum stjórnarskránni okkar að þessu leyti. Ég held að það sé ró í samfélaginu vegna þessara mála. En ég ítreka að hugmyndin er allrar athygli verð og engin ástæða til annars en ræða hana.