135. löggjafarþing — 56. fundur,  30. jan. 2008.

landshlutabundin orkufyrirtæki.

301. mál
[15:45]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég er alveg sammála þeim sjónarmiðum sem komið hafa fram hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni og hv. fyrirspyrjanda. Ég er þá að vísa til þeirra sjónarmiða að störf og verðmætaaukning sem verða til vegna orkuframleiðslu eigi að falla til á þeim svæðum þar sem orkan er framleidd.

Auðvitað veit hv. þingmaður það mætavel að t.d. sú stóriðja sem byggð hefur verið upp í landinu hefur í ýmsum tilvikum verið rekin á grundvelli orku sem unnin er annars staðar. Ég hef þess vegna fullan skilning á þessu sjónarmiði.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson spyr sérstaklega út í Blöndu. Ég er þeirrar skoðunar að þá orku sem fellur til í Blöndu eigi að nota eftir því sem kostur er til þess að byggja upp atvinnustarfsemi á því svæði sem segja má að sé áhrifasvæði hennar. Ég hef sem iðnaðarráðherra reynt að leggja mitt af mörkum til þess að líkur á því aukist.

Hv. þingmaður veit það sem þingmaður kjördæmisins að síðan er jafnvel uppi gagnrýni á Norðurlandi, af því að hv. fyrirspyrjandi tók nú Norðurlandið allt í sinni upphafsræðu, á að hluta af orku Blöndu er verið að nota annars staðar fjarri því svæði til að standa undir vaxandi stóriðju. Það eru auðvitað uppi kröfur um það frá þeim sem efla vilja stóriðju að hringtengingin sé efld því að byggðalínan er fulllestuð til að geta flutt rafmagn á milli landshluta til uppbyggingar stóriðju.

Ég er eskki þeirrar skoðunar. Ég t.d. er handviss um að eitt af því sem er hvað mest aðkallandi í orkumálum er einmitt að efla vesturlínuna, m.a. til að auka orkuöryggi á Vestfjörðum. Það er slakast þar og það er mjög erfitt að byggja upp iðnað sem krefst mikillar orku. Það er eitt af því sem (Forseti hringir.) ég hef verið að leggja drög að núna allra síðustu vikur.