135. löggjafarþing — 56. fundur,  30. jan. 2008.

stuðningur við fiskvinnslu á Bíldudal.

309. mál
[15:48]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Þessi spurning sem ég beini hér til hæstv. iðnaðarráðherra um stuðning við fiskvinnslu á Bíldudal var lögð fram um miðjan nóvember og atvikin hafa hagað því þannig að hún er að koma á dagskrá þingsins í dag.

Alveg fram á síðustu ár hefur Bíldudalur skipað mikilvægan sess í útgerð og fiskvinnslu hér á landi. Gjöful fiskimið og atorkusamir sjómenn og vinnufúsar hendur í landi hafa átt drjúgan hlut að því að gera okkur að einni ríkustu þjóð heims og ef rétt væri á málum haldið og forgangsréttur byggðanna að auðlindum sínum tryggðum, sæjum við hlut Bílddælinga áfram stóran í öflun þjóðartekna.

Þetta hefur hins vegar farið á annan veg og síðustu 10–15 ár hafa Bílddælingar háð stöðuga varnarbaráttu og mátt láta undan síga eins og flestar minni sjávarbyggðir. Að hagræða og leita fyllstu hagkvæmni í atvinnurekstri er sjálfsagt en sú stefna sem krefst þess að heilu samfélögunum sé hagrætt í hel er miskunnarlaus gagnvart fólkinu og sérstaklega þjóðinni er til lengri tíma er litið. Íbúar Bíldudals unna heimabyggð sinni og samfélag fólksins meðfram ströndum landsins og inn til dala myndar ákveðna grunngerð byggðarinnar og er hin dýra auðlind sem gerir okkur að þjóð. Búsetan er samofin sjálfbærri nýtingu náttúruauðlindanna til lands og sjávar. Vissulega verður ekki búið á öllum þeim stöðum sem voru byggðir um aldir en hér er um allt annað að tefla.

Staða Bíldudals hefur verið sú að þarna hefur látið undan síga og bara á nokkrum síðustu árum hefur íbúum fækkað um 100, nú í lok síðasta árs búa þar u.þ.b. 170 manns. Það er því ljóst að grípa þarf til virkilega ákveðinna aðgerða til þess að tryggja þarna atvinnulíf. Ég hef setið á fundum þingmanna kjördæmisins, ég man eftir fundi 2005 á Bíldudal þar sem átti að fara að endurreisa fiskvinnsluna og hver lofaði annan um að standa á bak við þær aðgerðir. Ekkert gerðist. Það var gripið til aðgerða á sl. ári um uppbyggingu fiskvinnslu á Bíldudal og aftur var lofað en þeirri fiskvinnslu sem þá fór í gang varð að loka aftur. Nú er að vísu búið að úthluta byggðakvóta fyrir sl. ár til nýs fyrirtækis, Perlufisks á Patreksfirði, til atvinnuuppbyggingar á Bíldudal en ljóst er að það fyrirtæki þarf að koma með fiskveiðiheimildir á móti og eiga heilmikið (Forseti hringir.) eigið fé. Ég spyr því hæstv. ráðherra og ítreka spurningu mína: Hvernig hyggst ráðherra svara ákalli og koma raunverulega til stuðnings að uppbyggingu fiskvinnslu og útgerðar á Bíldudal?