135. löggjafarþing — 56. fundur,  30. jan. 2008.

stuðningur við fiskvinnslu á Bíldudal.

309. mál
[15:56]
Hlusta

Herdís Þórðardóttir (S):

Frú forseti. Þegar ljóst var sl. sumar að skera yrði verulega niður aflaheimildir í þorski var fyrirséð að sjávarútvegsfyrirtæki yrðu fyrir verulegum búsifjum. Það kemur ekkert í staðinn fyrir 60 þús. tonna niðurskurð á þorski.

Bíldudalur er einn þeirra útgerðarstaða sem átt hefur erfitt uppdráttar undanfarin ár og þar þyngist róðurinn eins og annars staðar þegar samdráttur verður í veiðum. Bæjarstjórn Vesturbyggðar ákvað nú í vikunni að lagt yrði til að fyrirtækið Perlufiskur fengi úthlutað 239 tonnum af byggðakvóta með þeim skilyrðum að afli yrði unninn á Bíldudal. Þó svo að vandi Bílddælinga verði ekki leystur að fullu með þessu er ég sannfærð um að þetta mun hafa jákvæð áhrif.

Því miður báru fyrri tilraunir til þess að reisa atvinnulífið við ekki árangur. Því er það fagnaðarefni að málið sé komið á þennan rekspöl enda eru bundnar vonir, eins og hæstv. iðnaðarráðherra gat um áðan, við kalkþörungaverksmiðjuna (Forseti hringir.) fyrir vestan, að stjórnvöld komu að þeirri uppbyggingu á sínum tíma.