135. löggjafarþing — 56. fundur,  30. jan. 2008.

stuðningur við fiskvinnslu á Bíldudal.

309. mál
[16:01]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það ákvæði þess sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson kallar þrælalög, þ.e. framsalið, er auðvitað undirrótin að þessu og ég vek eftirtekt á því að sá sem nú gegnir stöðu iðnaðarráðherra greiddi aldrei atkvæði með því. Það gerðu ýmsir aðrir sem hér eru í stjórnarandstöðu í dag.

Hv. þm. Jón Bjarnason segir að eigið fé byggðanna sé uppurið og hið opinbera verði að koma að með samfélagslegum hætti. Hvað hefur iðnaðarráðuneytið gert í þeim efnum? Það hefur barist fyrir því og náð því fram að það er búið að slá undir Byggðastofnun með þeim hætti að stofnunin hefur núna 10 milljarða aukna útlánagetu. Halda menn að það skipti ekki máli þegar kemur að því að fjármagna fyrirtæki eins og fyrirtæki þess harðduglega athafnamanns sem hér var nefndur fyrr í umræðunni? Halda menn að það skipti ekki máli til þess að fleyta fyrirtækjum á Vestfjörðum fram yfir þann brimskafl sem nú er verið að sigla í gegnum? Að sjálfsögðu skiptir það máli. Þessi aðgerð var ekki bara vítamínsprauta, hún var hreinlega lífgjöf fyrir sum af þeim fyrirtækjum sem berjast í bökkum vegna þorskaflaskerðingarinnar en líka vegna þeirrar þróunar sem hefur átt sér stað síðastliðin ár. Á hverju einasta ári er framleiðniaukning upp á 5% í sjávarútvegi. Það þýðir það einfaldlega að af því sem við getum kallað eðlilegum ástæðum framþróunar fækkar störfum í þeirri grein um 5% á ári. Þetta er það sem við er að glíma.

Það er þess vegna sem það er svo nauðsynlegt að hið opinbera skapi umhverfi sem frumkvöðlar geta hreyft sig í og sem liðsinnir frumkvöðlum í héraði til þess að berjast, bæði til þess að koma upp nýjum störfum og nýjum fyrirtækjum í sjávarútvegi en ekki síður í fyrirtækjum sem eru í öðrum geirum, eins og hér hafa verið nefndir. (Forseti hringir.) Það hefur Byggðastofnun svo sannarlega gert (Forseti hringir.) þó að hún sé því miður oft í þessum sölum (Forseti hringir.) höfð að allt of miklu háði og spotti. En hún skiptir máli (Forseti hringir.) fyrir byggðirnar og það skiptir máli að hún fékk þetta aukna svigrúm.