135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

efnahagsmál.

[10:40]
Hlusta

Rósa Guðbjartsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Mikil umskipti hafa orðið í efnahagsmálum og í fjármálalífi í landinu á síðustu mánuðum og vikum. Umskiptin hafa reyndar verið svo hröð að með ólíkindum hefur verið að horfa upp á. Verðmæti hlutabréfa, sem skráð eru í Kauphöll Íslands, hafa á allra síðustu mánuðum lækkað gríðarlega, samkvæmt nýjustu útreikningum um 1.700 milljarða kr. Við fáum af því fréttir hvernig markaðurinn og atvinnulífið bregst við. Bankarnir draga úr útlánum til nýframkvæmda, verulega hefur hægt á fasteignamarkaði og fyrirtækin halda að sér höndum. Blikur eru á lofti.

En staða ríkissjóðs Íslands er ákaflega sterk. Þökk sé traustri hagstjórn í landinu undanfarin ár. Þess vegna er hægt að bregðast við ástandinu með markvissum aðgerðum. Einn mikilvægasti þátturinn í þeirri hagsæld sem hér hefur ríkt og þeim árangri sem náðst hefur við efnahagsstjórnina er að mínu mati þær miklu skattalækkanir sem síðustu ríkisstjórnir hafa staðið fyrir. Þar vegur þungt lækkun tekjuskatts á einstaklinga og virðisaukaskatts á matvæli en ekki síst að á tíu ára tímabili lækkaði tekjuskattur fyrirtækja úr 45% í 18% eins og skatturinn er nú. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa.

En í þeim þrengingum og óvissu sem skyndilega ríkir í efnahagslífi landsins vil ég beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra hvort hann hyggst bregðast við þessum breyttu aðstæðum og beita sér fyrir því innan ríkisstjórnarinnar að skattar verði lækkaðir frekar á fyrirtæki og þá hvenær.

Fyrir rúmu ári skilaði nefnd á vegum forsætisráðherra um alþjóðlega fjármálastarfsemi á Íslandi tillögum sínum. Miklar vonir eru bundnar við það hér á landi að hér verði alþjóðleg fjármálamiðstöð og þar vegur hagstætt skattaumhverfi þyngst. (Forseti hringir.) Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort fram undan sé framkvæmd og útfærsla einhverra tillagna nefndarinnar og hvort forsætisráðherra (Forseti hringir.) sé hlynntur því að komið verði á fót samráðsnefnd stjórnvalda og aðila markaðarins sem hefur það hlutverk að tryggja samkeppnishæfni fjármálastarfsemi á Íslandi.