135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

efnahagsmál.

[10:42]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að óska þingmanninum til hamingju með jómfrúrræðu sína. En varðandi efni þessara spurninga þá er það þannig að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar stendur að stefnt skuli að því að lækka frekar skatta á fyrirtæki á kjörtímabilinu. Það er tímaramminn sem gefinn er í þessu máli eins og öðrum stefnumótandi málum í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þannig að frekari tímasetningar liggja ekki fyrir á þessu stigi. Vissulega er það áleitin spurning hvort við núverandi aðstæður sé rétt að lækka tekjuskattshlutfall fyrirtækja. Það er til skoðunar eins og margt fleira. En það þarf líka að hafa í huga að önnur atriði eru í gangi einmitt núna. Kjarasamningar eru fram undan og halda þarf vel á öllum spöðum á þeirri siglingu sem fram undan er. Ég tek undir það meginsjónarmið, sem fram kom hjá þingmanninum, að æskilegt væri að lækka skatta á fyrirtækjum enn frekar, m.a. í ljósi þeirrar reynslu sem við höfum fengið af fyrri lækkunum og tekjuskattshlutfalli fyrirtækja.

Varðandi síðari spurninguna, um alþjóðlega fjármálamiðstöð, lét forveri minn, Halldór Ásgrímsson, fyrrv. forsætisráðherra, vinna skýrslu um það efni. Sú skýrsla var tilbúin fyrir rúmlega ári og hefur síðan verið til meðferðar á vegum ríkisstjórnarinnar. Í henni eru margar mjög athyglisverðar hugmyndir og tillögur sem verið er að vinna úr. Ekki er komin niðurstaða í öll atriði — þau eru reyndar misjafnlega vel framkvæmanleg, atriðin sem koma fram í þeirri skýrslu — en við munum reyna að vinna úr því máli eftir föngum. Í því efni eins og svo mörgu öðru skiptir líka máli með hvaða hætti slíkir þættir eru tímasettir.