135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

loðnuveiði og úthafsrækjuveiðar.

[10:53]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að það er áhyggjuefni að við höfum ekki fundið nægilega loðnu til að geta hafið veiðarnar. Að vísu var dálítill vonarneisti í því að á sínum tíma mældist nægilega mikið af smáloðnu til þess að talið var óhætt að gefa út lítillegan upphafskvóta í loðnu, rúmlega 200 þús. tonn. Þar var auðvitað um mikla varúðarnálgun að ræða. Bæði útvegsmenn og sjómenn sem hafa stundað loðnuveiðar hafa lagt mikla áherslu á að fá upphafskvóta. Ég hef hafnað því nema fyrir lægju vísindalegar forsendur til að gefa út slíkan kvóta. Nú lágu þær fyrir þannig að möguleikar manna til þess að fara til leitar á skipunum eru til staðar. Því miður hefur lítið fundist af loðnu. Það fannst einhver dreif af blandaðri loðnu sem gaf hins vegar ekki tilefni til þess að hefja neina kröftuga veiði. Bjarni Sæmundsson hefur verið við leit frá því um áramótin og fundið þetta lítilræði.

Tekin var ákvörðun um það varðandi starfsáætlun Hafrannsóknastofnunar að auka áhersluna á loðnurannsóknirnar m.a. vegna þess sem hv. þingmaður var í rauninni að spyrja um að ástandið hefur verið afbrigðilegt undanfarin ár. Það skýrist af ýmsum þáttum, leitin vestur af landinu tókst ekki sem skyldi, m.a. vegna hafíss. Auðvitað standa enn þá vonir til þess að við finnum loðnu, það hefur gerst á síðari árum að loðnan hefur fundist jafnvel síðar en þetta.

Varðandi rækjuveiðina þá höfum við gefið út kvóta, 7 þús. tonn á ári hverju, að ég hygg. Hann hefur ekki náðst. Kvótinn hefur ekki verið hamlandi í sókninni. Vandinn í rækjuveiðinni stafar aðallega af því að rækjuverðið er lágt, sóknartengdur kostnaður hefur hækkað, olíuverð hefur hækkað o.s.frv. Kvótinn er því alls ekki hamlandi í þessum efnum. Ég tel þess vegna að sú breyting sem hv. þingmaður er að leggja til mundi litlu breyta um sóknina í rækjuna.