135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

transfitusýrur í matvælum.

[11:02]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er ekki gaman að eiga Norðurlandamet í hlutfalli transfitusýra í mat. Ég tel að við verðum að grípa til aðgerða til þess að ná sömu stöðu og Danir hafa náð. Þegar þeir tóku upp sína löggjöf var það gert án vandræða á markaði. Talið er að við séum með svona hátt hlutfall hér á landi af því að við flytjum inn talsvert mikið af vörum frá Bandaríkjunum. Ég tel að við þurfum að breyta löggjöf okkar þannig að við getum verndað okkar fólk, okkur Íslendinga fyrir þessum slæmu sýrum. Ljóst er að um 50 þúsund manns falla frá í Evrópu á ári út af þessum transfitusýrum. Við höfum vörn í lýsinu og meðan við erum ekki búin að laga til hjá okkur er mjög brýnt að allir taki lýsi, svo að því sé til haga haldið, af því að það veitir vernd.

Fyrirtæki eins og McDonalds og Kentucky Fried hafa nú þegar gripið til aðgerða til þess að minnka transfitusýrur (Forseti hringir.) hjá sér þannig að augu flestra eru að opnast fyrir þessum vágesti.