135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[11:44]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil einmitt líta til framtíðar og framtíðin er þannig að íslenska krónan verður okkar gjaldmiðill næstu árin. Ekkert getur breytt því.

Það stendur ekki til að hálfu ríkisstjórnarinnar að reyna að breyta því og það tæki hvort sem er mörg ár að semja um aðild að Evrópusambandinu og síðan færi í hönd ferli þar sem við þyrftum að sannreyna að við uppfylltum upptökuskilyrðin í myntbandalagið þannig að við erum alltaf að tala um mörg ár.

Þess vegna munum við búa við krónuna næstu árin og þess vegna er mikilvægt að tala hana ekki niður. Það er ekki þannig að ástandið núna sé birtingarmynd þess hversu erfitt sé að vera með litla krónu fljótandi í alþjóðavæddum viðskiptaheimi. Þetta er birtingarmynd þess að 6–8% verðbólga er of mikil verðbólga, að 14% stýrivextir eru of háir og að 10–20% viðskiptahalli er brjálæðislega mikill. Þetta er birtingarmynd hagstjórnarmistaka sem krónan sem slík ber ekki ábyrgð á.