135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[11:47]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég nefndi tvíhliða samning sem valkost fyrir Ísland ekki einu orði í minni ræðu. Það er misskilningur. Ég var að tala um þá leið sem Sviss hefði farið og vitna til þess hvernig Norðmenn hafa staðið að málum.

Afstaða mín til EES-samningsins var á sínum tíma og er enn sú að viðskiptaþættir hans og aðild okkar að innri markaðnum þjónuðu okkur í öllum aðalatriðum vel. Upp á þessu getur hv. þingmaður flett. Það voru aðrir þættir sem gerðu það að verkum að ég lagðist gegn samningnum fremur en viðskiptahlið hans. Það voru stjórnsýsluhættirnir, sá lýðræðishalli sem verður á aðkomu okkar að málum með þessum hætti og ýmsir ágallar Evrópusamvinnunnar sem slíkrar sem ég er ekki hrifinn af.

Ég er ekki spenntur fyrir evrópsku stórríki, federalísku ríki og sé Ísland ekki fyrir mér inni í því. Svo var það þetta með stjórnarskrána, sem ég var reyndar búinn að nefna. Ég bið hv. þingmann að lesa ræðu mína aftur. Hún kemst þá væntanlega að raun um að ég nefndi þessa hluti ekki einu orði sem hún krefur mig um að svara fyrir.

Ástæða þess að ég tók upp EES-samninginn og umræður um hann á sínum tíma var ósköp einföld. Ég var að svara því sem ég tel vera ósanngjarna og ranga greiningu hæstv. utanríkisráðherra á þeim aðstæðum sem þá voru uppi. Ég vildi bera hönd fyrir höfuð mér og marga aðra sem lögðust gegn samningnum með rökum. Menn geta hlegið að þeim núna og sagt að þetta hafi allt farið öðruvísi og á betri veg. En það má líka hlæja að þeim sem sögðu að Ísland mundi algjörlega lenda undir og gleymast úti á kanti ef það gengi ekki í Evrópusambandið. Það má líka hlæja að umræðunni í Noregi sem var að reyna að afgreiða andstæðinga aðildar Noregs að Evrópusambandinu þannig að Noregur mundi verða undir í Evrópu, verða að einhverju undirmálsríki ef þeir gengju ekki í Evrópusambandið. Þetta var sagt í hið fyrra sinn og þetta var sagt í hið seinna sinn og hefur aldrei verið fjær sanni. Íslandi, Noregi og Sviss hefur vegnað vel þrátt fyrir þær leiðir sem þessi lönd völdu.