135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[11:52]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ræða hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar olli mér nokkrum vonbrigðum. Ég hélt nefnilega, þegar ég sá hann klappandi í fremstu röð til að fagna kosningasigri SF í Danmörku í haust, að hann ætlaði kannski að taka sér til fyrirmyndar framsækin og opin viðhorf þess ágæta flokks til Evrópusamrunans. En ræða hans benti til þess að hann „parkeri“ flokknum enn og aftur í sömu hjólför óbreytts ástands.

Sérstakt áhyggjuefni í því samhengi er afstaða hv. þingmanns til spurningarinnar um gjaldmiðilinn. Hann segir að það sé sérstakur ávinningur af því að halda í íslenska krónu, ávinningur á móti kostnaði. Þá vil ég bara fá að spyrja hann: Hvar er ávinningurinn?

Nú er það svo að hagfræðingar Alþýðusambandsins og Samtaka iðnaðarins eru eiginlega aldrei sammála um nokkurn skapaðan hlut. Eitt eru þeir þó sammála um, þ.e. um að herkostnaður þjóðarinnar af gjaldmiðlinum sé 72 milljarðar á ári í jafnvægisástandi — í jafnvægisástandi, hv. þingmaður. Þar af leggist á heimilin kostnaður upp á 36 milljarða kr., heimilin sem eiga sér færri bjargir en stórfyrirtækin sem geta fjármagnað sig í evru og þar af leiðandi valið að fara úr þessu umhverfi.

Ég verð að spyrja hv. þingmann, af því að hann telur sig mæla fyrir hag vinnandi fólks: Með hvaða rökum er hægt að réttlæta þær álögur á vinnandi fólk? Hvaða ávinningur af krónunni er þess virði að leggja slíkar byrðar á venjulegt fólk, venjulegar fjölskyldur í landinu með ofurvöxtum og endalausum óstöðugleika?