135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[11:56]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður virðist nú deila þeim misskilningi með nokkrum öðrum að Danir séu með sjálfstæðan gjaldmiðil. Mjög gott dæmi um að aðild að evrunni þurfi ekki að kalla á atvinnuleysi er einmitt ástandið í Danmörku. Danir búa við evru í reynd. Það eru mörg önnur lönd í Evrópu sem geta sýnt mjög góða niðurstöðu í atvinnumálum. Því fer því fjarri að hægt sé að setja samasemmerki á milli atvinnuleysis annars vegar og upptöku evru hins vegar.

Það sem hv. þingmaður skuldar þjóðinni er skýring á því hvar hinn sérstaki ávinningur liggur og hvað það er sem gerir það réttlætanlegt að leggja slíkar álögur á íslensk heimili og íslensk smáfyrirtæki og hlaða þannig undir stórkapítalið sem hv. þingmaður þykist alltaf á móti, a.m.k. til hátíðabrigða.