135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[12:15]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og fram kom í ræðu minni voru skiptar skoðanir um aðild að EES-samningnum á sínum tíma. Ég studdi þá EES-samninginn með ráðum og dáð og ég tel að það hafi verið rétt og að við höfum uppskorið afar margt jákvætt með EES-samningnum.

Það kom líka fram hjá mér að það eru skiptar skoðanir í dag innan Framsóknarflokksins um þessi mál og það er ekkert launungarmál. Það eru skiptar skoðanir í flestum flokkum um hugsanlega aðild að ESB. Við sjáum að það eru skiptar skoðanir innan ríkisstjórnarinnar. Ekki verið að tala um að sækja um á þeim vettvangi og það er ekki einu sinni hægt að hafa einn formann í nefndinni sem á að ræða um Evrópumál heldur þarf tvo formenn, hvorn frá sínum flokknum. Því er alveg ljóst að það eru ekki mjög hreinar línur varðandi umsókn að ESB.

Ég tel sjálf að það eigi ekki að sækja um aðild að Evrópusambandinu við þær aðstæður sem núna eru. Ég útiloka það hins vegar alls ekki til framtíðar og það er rétt að Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi formaður flokksins, spáði því að árið 2015 værum við komin inn í Evrópusambandið. Það má vel vera að það gangi eftir. Það getur líka vel verið að það verði ekki. Aðalatriðið er, og það viljum við framsóknarmenn undirstrika, að við þessar aðstæður sem nú eru byggjum við á EES-samningnum. Við verðum hins vegar að vera tilbúin ef aðstæður breytast og þá verðum við að hafa okkar samningsmarkmið skilgreind og við höfum lagt mikla vinnu í það.

Við erum líka núna að hefja vinnu við að skoða stöðu krónunnar. Við höfum talsverðar áhyggjur af gjaldmiðlinum okkar. Krónan er veik og hún á erfitt uppdráttar núna í hnattvæðingunni þannig að við erum að setja það í gang til að skoða sérstaklega hvernig við getum brugðist við því og það má vel vera að sú vinna muni hafa einhver áhrif á stefnuna til framtíðar. Það er ekki hægt að útiloka það. En stefnan er þessi: Við viljum byggja á EES-samningum eins og stendur en útilokum ekki aðild til framtíðar frekar en annað.