135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[12:37]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, ég las skýrsluna sem kom út í mars í fyrra en mér fannst hæstv. ráðherra mála hlutina aðeins dekkri litum í fyrri ræðu sinni. Ég heyri nú að þetta er svona almennt viðhorf að við höfum kannski ekki nýtt tækifæri okkar eins og við hefðum getað. Ég heyri að hæstv. ráðherra segir líka að við höfum kannski ekki gert okkur grein fyrir því.

Skýrslan kom út í mars á síðasta ári þannig að væntanlega hlýtur á næstunni að fara í gang geysilega mikil vinna við að nýta tækifærin betur. Það er alveg ljóst að það er mikilvægt að við nýtum öll þau tækifæri sem við höfum til þess að hafa áhrif innan Evrópusambandsins, við erum að taka inn svo mikið af löggjöf sem hefur áhrif hér á Íslandi. Þetta kostar auðvitað geysilega mikið fjármagn og ég hef reynslu af því síðan ég var í umhverfisráðuneytinu að það var afar harðdrægt að fá fjármagn úr sjóðum ríkisins til þess að sinna þessu starfi.

Líklega eru um 40% af tilskipunum sem við erum að innleiða hér á sviði umhverfismála og ekki var alltaf mikill skilningur á því að greiða þyrfti fyrir það samráð og þau áhrif sem maður vildi gjarnan hafa. Við reyndum að gera eins og við gátum. Ég skora á ríkisstjórnina að standa sig þá betur fyrst augu manna eru að opnast gagnvart því að við höfum ekki nógu mikil áhrif og nýtum ekki þau tækifæri sem við höfum. Menn verða þá líka að vera reiðubúnir að kosta því til sem þarf og styrkja ráðuneytin að þessu leyti.