135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[12:40]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Í skýrslu utanríkisráðherra um Ísland á innri markaði Evrópu kemur býsna margt fram sem ástæða er til að taka til umfjöllunar og ég mun víkja að nokkrum atriðum þar.

Eitt af því sem rakið er í skýrslunni eru efnisatriði í nokkrum tilskipunum sem Evrópusambandið hefur verið að vinna að eða er búið að gera og þátttöku Íslendinga í því ferli á undirbúningsstigi og sjónarmiðum Íslands í þeim aðdraganda.

Ég tel, virðulegi forseti, að þótt það sé mjög þarft að fá þessa greinargerð fram og skýringar sé í raun varla ráðrúm í þessari umræðu til að víkja að einstökum málum eins og þarft væri og skýrslan gefur tilefni til. Ég vildi því beina því til forseta og hæstv. utanríkisráðherra að taka það til athugunar að taka sumt af þessum tilskipunum og málum sem eru í undirbúningi til sérstakrar umræðu á Alþingi. Margt í þessu er það viðamikið að full ástæða er til þess. Mér sýnist aðkoma Alþingis á undirbúningsstigi vera mjög lítil í mörgum af þeim málum sem hér eru rakin og þess vegna væri full þörf á því að taka málið til umfjöllunar á Alþingi og jafnvel hverja og eina viðamikla tilskipun Evrópusambandsins fyrir sig.

Mig langar þó áður en ég kem að aðalatriðinu í þessari umræðu, sem er aðildin að EES og Evrópusambandinu, að víkja að þremur málum. Í fyrsta lagi að á blaðsíðu 25 kemur fram í kaflanum um frjálsa för fólks að Íslendingar hafi gert athugasemdir við nýja tilskipun Evrópusambandsins í þeim efnum með þeim rökum að hún gengi lengra í veitingu réttinda til borgara utan EES-svæðisins en svigrúm samningsins gæfi heimildir fyrir.

Ég vil gera athugasemdir við þetta sjónarmið, þær sömu og ég gerði í umræðu fyrr á þessu þingi um frumvarp um atvinnuréttindi útlendinga. Ég tel að við séum komin allt of langt í því að byggja múra utan um Ísland innan Evrópusambandsins og bægja frá okkur fólki sem býr utan þessara múra sem er auðvitað meginþorri íbúa heimsins. Mér finnst að mörgu leyti að við höfum gengið það langt vegna þess að við erum með því að taka þátt í að búa til einhvern sameiginlegan vinnumarkað, þ.e. það eru efnahagsleg sjónarmið sem höfð eru í fyrirrúmi, forréttindi þeirra sem eru innan sambandsins, en á kostnað þeirra sem eru utan. Mér finnst að við höfum gengið það langt að við séum farin að ganga á mannréttindi margra þeirra Íslendinga sem hingað hafa flutt á undanförnum áratugum og eiga uppruna sinn utan landa Evrópusambandsins, eins og í Taílandi, Ástralíu og víðar. Býsna margir frá þessum löndum búa hér á landi og þeir eiga mjög erfitt með að fá til sín ættingja og aðra sem vilja koma til landsins og búa hér um lengri eða skemmri tíma hjá þeim. Mér finnst þetta sjónarmið ganga of langt gegn réttindum þeirra sem eru utan Evrópusambandsins og við eigum ekki, að mínu viti, að taka þessa hörðu línu sem þarna er greint frá.

Í öðru lagi er á blaðsíðu 23 greint frá því að tvíhliða viðræður séu í undirbúningi við Evrópusambandið um endurskoðun samninga um viðskipti með unnar landbúnaðarvörur. Ég vil inna ráðherra eftir því hvaða stefnu Ísland hefur í þeim efnum. Ég tel nauðsynlegt að ráðherra geri grein fyrir því að hverju er stefnt í þessum efnum. Innflutningur á unnum landbúnaðarvörum er mál sem hefur töluvert verið deilt um á Alþingi og það eru augljóslega skýrar áherslur í þeim efnum hjá Samfylkingunni og mjög ólíkar því sem gerist hjá Sjálfstæðisflokknum. Ég held að það verði að inna eftir því hvaða línu ríkisstjórnin ætlar að leggja í þessum viðræðum.

Í þriðja lagi er á blaðsíðu 11 fjallað ítarlega um málefni siglinga og sjávar og greint frá því máli. Mig langar að inna eftir afstöðu utanríkisráðherra eða íslensku ríkisstjórnarinnar til sums af því sem þarna kemur fram, eins og til siglinga um íslenska efnahagslögsögu, vöktun siglinga. Hvaða sjónarmið hyggst ríkisstjórnin hafa þar í forgrunni til þess að vernda lífríki hafsins og koma í veg fyrir, eftir því sem kostur er, að hér verði umhverfisslys bæði á hafi úti og eins nær landinu?

Ég held að það sé mjög þýðingarmikið að Íslendingar hugi mjög alvarlega að þessum málum vegna þess að fram undan er augljóslega mikill vöxtur í siglingum stórra flutningaskipa með vörur og olíu og aðra viðkvæma vöru sem getur spillt íslensku lífríki og fiskimiðum með óbætanlegum hætti ef slys yrðu á þeim siglingaleiðum. Þess vegna skiptir máli hvar siglingarnar fara fram og að hve miklu leyti hægt er að ná alþjóðlegum samningum um að stjórna þeim.

Ég vík þá að aðalmáli ræðunnar, um Evrópska efnahagssvæðið. Það var greinilegt að aðalatriðið í ræðu hæstv. utanríkisráðherra er það að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið. Sú skoðun utanríkisráðherrans fór ekkert á milli mála og öll ræðan bar það með sér að næsta skref sem Íslendingar ættu að taka væri að ganga í Evrópusambandið. Það kom líka fram í máli fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, hæstv. dómsmálaráðherra, sem vitnaði til bókunar fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í skýrslu Evrópunefndar frá því á síðasta ári að það væri ekki stefna Sjálfstæðisflokksins.

Ég hlýt að velta því fyrir mér hvernig á því stendur að hæstv. utanríkisráðherra flytji hér ræðu með pólitískum boðskap fyrir hönd ríkisstjórnarinnar sem annar stjórnmálaflokkurinn stendur ekki að. Hvað er verið að segja þinginu með slíkum ræðuflutningi? Það er auðvitað verið að segja það að mínu viti, virðulegi forseti, að það er ágreiningur í ríkisstjórninni um þetta mál og að Samfylkingin hefur ákveðið að tefla fram þessu máli sínu af fullum þunga og tala fyrir því innan ríkisstjórnarinnar þó að ekki sé samkomulag um þessi skref. Það finnst mér mjög athyglisvert og maður hlýtur að velta fyrir sér hver verði næstu skref í þróun þessa máls. Til hvers leiðir þessi málflutningur hæstv. utanríkisráðherra varðandi ríkisstjórnarsamstarfið? Ég fæ ekki séð annað en þetta hljóti að setja spennu í ríkisstjórnarsamstarfið svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Það er út af fyrir sig sjónarmið og það var þekkt hver afstaða Samfylkingarinnar væri í þessu máli. En það kemur mér á óvart að ráðherrann skuli tala fyrst og fremst fyrir sjónarmiðum Samfylkingarinnar en ekki sjónarmiðum ríkisstjórnarinnar. Ég á því ekki að venjast eftir nokkuð langa reynslu af því að starfa í stjórnarmeirihluta að einstakir ráðherrar tali fyrir sínum skoðunum þegar þær víkja frá skoðunum ríkisstjórnarinnar. Þegar ráðherrar fara inn á þær brautir eru þeir farnir að fjarlægjast ríkisstjórnarsamstarfið. Það verður ekki önnur ályktun dregin af þessu, virðulegi forseti.

Ég er ekki að öllu leyti sammála greiningu hæstv. utanríkisráðherra á aðdraganda málsins um Evrópska efnahagssvæðið og samningnum um það. Það var auðvitað margt álitamálið sem þá kom upp og menn deildu um. Það er vissulega rétt sem fram kom í máli hæstv. utanríkisráðherra að menn höfðu áhyggjur, sumir hverjir, af ýmsum þáttum sem ekki hafa svo gengið eftir enn þá. Margir höfðu áhyggjur af innflutningi vinnuafls, að það hefði mjög slæm áhrif á íslenskan vinnumarkað að opna hann svona fyrir fjölmennum þjóðum. Það voru þingmenn úr öllum flokkum, ef ég man rétt, sem höfðu miklar áhyggjur af þessu. Það hefur lengi vel ekki reynst rétt en síðustu árin hefur hins vegar orðið töluvert mikill innflutningur vinnuafls og af því hafa leitt ákveðin vandamál. Ef til vill voru þessar áhyggjur óþarfar eða kannski of miklar eða meiri en efni stóð til. Margir höfðu áhyggjur af því að útlendingar mundu kaupa hér land og eignast dali og firði. Það hefur ekki gerst en kannski eru einhver teikn á lofti um að það gerist. (SJS: Það er byrjað.) Mér finnst ekki rétt að slá allar þessar áhyggjur út af borðinu eftir 14 ár með þeim rökum að nú sé það sannað að þær voru rangar, vegna þess að samningurinn er ekki að falla úr gildi, framtíðin er ekki að hætt að koma. Þetta getur auðvitað gerst enn þá.

Margir voru auðvitað í vafa hvað ætti að gera á þeim tíma, styðja samninginn eða ekki. Ég man eftir einum hv. þingmanni sem sagði í þingræðu að hann sæti klofvega á girðingunni og gæti í hvorugan fótinn stigið og greiddi svo ekki atkvæði með og ekki á móti heldur sat hjá. Mér finnst það að mörgu leyti skiljanleg afstaða. Ég greiddi að vísu atkvæði á móti og fyrst og fremst vegna þess að ég taldi þá og tel reyndar enn að samningurinn brjóti í bága við stjórnarskrána. Framsal á dómsvaldi er það mikið í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið að það brýtur í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar að mínu mati. Hinu er ekki að neita, og ég held að það sé alveg rétt hjá hæstv. utanríkisráðherra, að samningurinn hefur reynst vel. En það að hann hafi reynst vel þýðir ekki endilega að við eigum að stíga næsta skref og ganga inn. Erum við ekki efst í lífskjarakönnun Sameinuðu þjóðanna utan Evrópusambandsins? Hefur ekki kaupmáttur á Íslandi hækkað miklu meira en í Evrópusambandslöndunum á samningstíma EES utan aðildar að Evrópusambandinu? Það má finna rök alveg til hins gagnstæða og segja sem svo: Það sem gert hefur verið gefur ekki tilefni til þess að gera neitt frekar. Allt eru þetta álitamál.

Ég skal ekkert um það segja að það sé endilega eitthvað sem við ættum alls ekki að gera að hugsa til þess að ganga í Evrópusambandið. Það hefur verið afstaða Frjálslynda flokksins eins og kemur fram í Evrópuskýrslunni, með leyfi forseta:

„Flokkurinn hefur allan vara á um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Aðild kemur ekki til greina á meðan reglur sambandsins eru óbreyttar í fiskveiðimálum.“

Það er forsendan. Þannig að breytist íslenska kvótakerfið þá getur afstaða Frjálslynda flokksins hugsanlega breyst. Við erum í sjálfu sér ekki með fyrir fram gefna andstöðu við aðild að Evrópusambandinu en við erum heldur ekki með fyrir fram gefna afstöðu með því. Það er opið spil að okkar mati. Við erum tilbúin til að ræða það af fullri alvöru, skoða kosti og galla og vega og meta þá, enda er afstaða frjálslyndra flokka um alla Evrópu meira og minna sú að styðja aðild að Evrópusambandinu. Það væru mikil frávik ef við værum með mjög harða afstöðu gegn slíku.

Á það má líka benda, sem kemur reyndar fram í skýrslunni og styður það kannski, að aðild að Evrópusambandinu gæti dugað og það eitt og sér hafi gefið þær framfarir í efnahagsmálum sem lýst hefur verið. Það segir nefnilega í skýrslunni á blaðsíðu 35 að aðild Íslands að Evrópusamrunanum, eins og það heitir í skýrslunni, hófst ekki með samþykkt samningsins um Evrópska efnahagssvæðið 1992, heldur með aðild Íslands að EFTA árið 1970. Ef við tökum það sem útgangspunkt hefur ávinningurinn eða þátttaka Íslands að þessu ferli staðið í tæplega 40 ár. Kannski var sú ákvörðun ekkert síður afdrifarík í þessum efnum en ákvörðunin frá 1992. Vegna þess að því fylgir auðvitað margt sem við höfum haft ávinning af að ganga til alþjóðlegs samstarfs af þessum toga, við fáum löggjöf sem við höfum varla mannskap til að smíða og tæplega þekkingu til að búa til, við fáum aðgang að slíkri löggjöf sem reynist okkur að mörgu leyti vel. En við látum auðvitað á móti töluvert af okkar raunverulega sjálfstæði með því að ganga inn í Evrópusambandið og þróunin Evrópusambandinu á síðustu árum er fremur í átt til minni áhrifa minni ríkja og meiri áhrifa stærri ríkja. Það hlýtur að vera einn af þeim þáttum sem menn horfa á þeim augum að það dragi úr áhuga á aðild að Evrópusambandinu við þær aðstæður.