135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[13:30]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi fagna því tækifæri að fá að ræða hér á Alþingi sérstaka skýrslu um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi og ég fagna þeirri stefnumörkun utanríkisráðherra að skýrslur af þessum toga verði reglulegur þáttur í starfi þingsins. Það er afar mikilvægt að hér fari fram opin umræða um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi og að hún byggi á faglegum upplýsingum eins og þeim sem liggja til grundvallar og er að finna í skýrslu ráðherra. Það er nefnilega svo að staða Íslands í Evrópusamstarfi er líklega eitthvert brýnasta hagsmunamál þjóðarinnar nú um stundir. Sú samtvinnun efnahagslífs og þjóðlífs okkar við Evrópu sem orðin er er með þeim hætti að ekkert annað einstakt málasvið hefur ríkari áhrif á afkomu okkar og starfsumhverfi, jafnt einstaklinga, fjölskyldna og fyrirtækja, en Evrópumál og ákvarðanir sem teknar eru á evrópskum vettvangi.

Í skýrslu ráðherra er lögð áhersla á aukið vægi umfjöllunar Alþingis um Evrópumál og ég fagna því sérstaklega. Það er mjög mikilvægt að við eflum sem kostur er aðkomu Alþingis að ákvörðunum sem teknar eru á Evrópuvettvangi og að við leitum allra leiða til að hámarka þau lýðræðislegu áhrif sem við getum haft í gegnum þann samning sem við búum við. Í því þarf útsjónarsemi og það þarf viðbragðsflýti og í gegnum tíðina hefur oft skort á nokkuð af hvoru tveggja af hálfu þingsins að mínu viti.

Ég fagna því að mikill áhugi er innan utanríkismálanefndar fyrir að rækja þetta hlutverk vel og að þar er vilji til þess að haga umfjöllun um Evrópumál með áþekkum hætti og gerist hjá frændum vorum og félögum Norðmönnum þar sem utanríkismálanefnd ásamt öðrum þingnefndum eftir því sem á þarf að halda, fjallar um einstök málefnasvið. Þannig má geta þess m.a. að í framhaldi af þeim samningaviðræðum sem nú eru í gangi á Evrópuvettvangi um útfærslu á kerfi viðskipta með gróðurhúsalofttegundir yfir flugsamgöngur, hefur nú þegar verið rætt um það við utanríkisráðuneytið að staða þeirra mála verði fljótlega kynnt utanríkismálanefnd, samgöngunefnd og umhverfisnefnd. Þannig mun utanríkismálanefnd ásamt fyrrnefndum fagnefndum gefast færi á að meta stöðu mála og leggja hagsmunamat á stöðuna.

Það er líka ljóst að vegna þess að lýðræðisleg áhrif þjóðþinga og kjörinna fulltrúa innan Evrópuþingsins á ákvarðanatöku í Evrópusambandinu eru að aukast þurfum við líka að nýta nýjar leiðir. Samkvæmt nýjum umbótasáttmála Evrópusambandsins munu þjóðþing aðildarríkjanna fá aukið áhrifavald á Evrópureglur. Einmitt þess vegna er einnig mikilvægt að þingmannasamstarf okkar við nágrannaríki okkar taki mið af því að við rækjum náin tengsl við þingmenn í þjóðþingum nágrannalandanna í ljósi þessarar stöðu. En þvert á það sem margir hafa klifað á eru lýðræðisleg áhrif kjörinna fulltrúa að aukast á ákvarðanir sem teknar eru á Evrópuvettvangi og þingmenn hafa því aukið vægi bæði innan Evrópuþingsins, eins og ég sagði, og nú í aðildarríkjunum. Það er þess vegna mjög mikilvægt að þó að við búum til kerfi sem við getum lifað við í ljósi EES-samningsins blekkjum við okkur ekki með því að þar með séum við með fullnægjandi lýðræðisleg áhrif á ákvarðanir á Evrópuvettvangi sem séu sambærileg við það sem við hefðum værum við aðilar að Evrópusambandinu. Svo er auðvitað ekki. Við erum auðvitað að búa til ákveðna hjáveitulausn og gera það besta úr þeirri lagalegu umgjörð sem við höfum um samskipti okkar við Evrópu en við skulum ekki blekkja okkur með því að með því sé einhvern tíma líklegt að lýðræðisleg áhrif kjörinna fulltrúa á Alþingi eða kjörinna fulltrúa íslensks almennings verði með sama hætti og þau yrðu væri Ísland aðildarríki að Evrópusambandinu því þá mundu, samkvæmt hinum nýja sáttmála, áhrif kjörinna fulltrúa í þessum sal aukast til muna á ákvarðanir á Evrópuvettvangi og íslenskir kjósendur eiga fulltrúa sína á Evrópuþinginu, sem nú er að verða þungamiðja löggjafarstarfs Evrópusambandsins.

Virðulegi forseti. Það er ekkert launungarmál að Samfylkingin styður að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu og sú afstaða okkar er óbreytt. Það er að mínu viti eitt brýnasta hagsmunamál almennings á Íslandi að við gerumst aðilar að Evrópusambandinu og fyrir því eru mörg rök. Ég er alveg sammála því sem kom fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar áðan að fyrir því voru vissulega rök á sínum tíma þegar EES-samningurinn var gerður og hann staðfestur hér í þessum sal að verja tiltekna grundvallarhagsmuni með þeirri aðferðafræði að standa utan við Evrópusamrunann að einhverju leyti. Það er auðvitað alltaf hægt að taka slíka afstöðu ef menn eru með afmarkaða hagsmuni sem er þá hægt að verja með þeim hætti.

Aðstæður hafa breyst. Í fyrsta lagi er það þannig að eftir skýrslu Evrópunefndarinnar á síðasta vetri er það staðfest að Ísland muni ekki þurfa að fórna grundvallarhagsmunum á sviði fiskveiða með aðild að Evrópusambandinu og hagsmunir Íslands að öðru leyti eru orðnir svo fjölþættir og margþættir að það er þar sem skórinn kreppir í dag.

Ég nefndi áðan útblásturskvótakerfið sem nú á að fara að færa yfir á flugsamgöngur. Þar erum við sem sagt núna bundin af því að taka upp kerfi sem mun hafa veruleg áhrif á það hvernig við getum hagað innanlands- og millilandaflugi. Það er líka ljóst að nýlega komu fram tillögur, bara í þarsíðustu viku ef ég man rétt, um að fella álframleiðslu undir þetta kerfi frá og með árinu 2013. Á Evrópuvettvangi er með öðrum orðum verið að vinna að tillögum sem munu hafa grundvallaráhrif á afkomu íslensks almennings og afkomu íslenskra fyrirtækja og rekstrarumhverfi þeirra og við erum sífellt í þeirri stöðu að búa til einhvers konar hjáleið áhrifa til þess að hafa áhrif á þær reglur sem verið er að marka.

Hæstv. dómsmálaráðherra ræddi líka áðan Schengen-samstarfið og þar gildir nokkuð annað um áhrif okkar á ákvarðanatökuna og mótun hennar, en líkt og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi hér fyrr í dag eru vinnumarkaðsmál hins vegar á vettvangi Evrópusambandsins. Ég er þess fullviss að ákvarðanir á sviði vinnumarkaðsmála, ákvarðanir sem síðan aftur tengjast útlendingamálunum í víðara skilningi, eins og hæstv. dómsmálaráðherra rakti áðan, verða stærri og fyrirferðarmeiri verkefni á sviði innanríkismála okkar og munu skipta okkur meiru á næstu árum en hingað til.

Hættan sem fylgir því að dýrka sérstöðuna framar samstöðunni með öðrum þjóðum er nefnilega sú að menn skilgreina þá sérstöðu sem sérstakt fyrirbæri, og hagsmunir sem á einum tíma eru fullnægjandi til þess að réttlæta að menn standi utan við samstarf af þessum toga verða allsráðandi. Vægi annarra hagsmuna breytist hins vegar og nýjar þarfir myndast og þá höfum við ekki áhrifavald á umgjörð íslensks efnahagslífs eða heimila að þessu leyti. Það er þar sem miklu skiptir að við sitjum við borðið. Á vettvangi Evrópu munu á næstu árum og áratugum verða teknar ákvarðanir sem hafa sífellt meiri áhrif á lífskjör almennings í landinu, á starfsskilyrði fyrirtækja og á þróun samfélagsins í heild. Ég held að það sé fullljóst að sá sem ekki situr við borðið mun aldrei, sama hversu vel hann reynir að komast fram hjá þeirri staðreynd þá mun hann aldrei fá sömu áhrif og þeir sem sitja við borðið og marka leikreglurnar.