135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[13:40]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar aðeins að víkja að ræðu hv. þm. Árna Páls Árnasonar, sem ég þakka fyrir og margt greinargott kom fram í. Ég undrast svolítið miðað við þau orð hans að brýnasta hagsmunamál íslensku þjóðarinnar sé, ef ég skil hann rétt, að ganga inn í Evrópusambandið og að áhrif okkar verði jafnmikil og kom fram í máli hv. þingmanns. Ég er ekki sammála því mati hans. Ég hygg að áhrif Íslands innan Evrópusambandsins yrðu viðlíka áhrifum Grímseyinga á íslensku löggjafarsamkomuna. Vissulega hafa Grímseyingar áhrif á það hvernig fulltrúar veljast á Alþingi og þeim þykir örugglega vænt um kosningarrétt sinn en þó er hið raunverulega vægi þeirra í þeim efnum harla lítið.

Ég velti því fyrir mér hvernig það geti farið saman að hafa þá afstöðu sem þingmaðurinn lýsti hér og gerði glögglega og vel grein fyrir skoðunum sínum en geta á sama tíma stutt núverandi stjórnarsamstarf, sem hefur algerlega tekið af öll tvímæli um að það stendur alls ekki til að gera neitt af því sem hv. þm. Árni Páll Árnason telur það allra, allra brýnasta og í raun og veru það eina sem skipti máli varðandi stjórnun landsins.