135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[13:45]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alrangt að ég sjái aðild að Evrópusambandinu sem einu lausnina í alþjóðamálum. Hv. þm. Bjarni Harðarson fellur í þá gryfju sem honum er gjarnt að falla í að rangtúlka, mistúlka og oftúlka orð manna. Ég hef aldrei sagt að þetta sé eina úrlausnarefnið í alþjóðamálum fyrir Íslendinga en ég hef fært fyrir því skýr rök að þetta sé brýnasta hagsmunamál íslensks almennings.

Hvað varðar ósk hv. þm. Bjarna Harðarsonar um fordómalausa umræðu um Evrópumál, sem hann reynir að ásaka mig um að vilja ekki standa í, þá vil ég benda á að hv. þingmaður hefur tekið umræðu um Evrópumál niður í það fúafen að líkja Evrópusambandinu við nasistaríki Hitlers og alræðisvald Jósefs Stalíns og gert það ítrekað. Almenningur á Íslandi veit hins vegar að aðild að réttindum sem Evrópusambandið veitir á grundvelli EES-samningsins hefur bætt lýðréttindi íslensks almennings, aukið úrræði venjulegs fólks, styrkt stöðu borgaralegs samfélags í landinu, aukið réttindi borgaranna að öllu leyti. Að hv. þingmaður skuli af lýðskrumi tala með þessum hætti er ekki til vitnis um fordómalausa umræðu. Það er til vitnis um alþekkt skrumskælingartrikk sem lengi hefur borið á í þessari umræðu en við skulum reyna að leggja á hilluna í framtíðinni.