135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[13:48]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Í mínum huga er það fagnaðarefni að fá tækifæri til að ræða á Alþingi um Evrópumál á breiðum grunni. Umræðan um þau mál hér á landi hefur tilhneigingu til að snúast um of um afmarkaða þætti og er allt of mikið í upphrópunarstíl þar sem fyrir fram gefnar klisjur eru helsta fóðrið. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að flytja Alþingi þá skýrslu sem hér liggur fyrir og einnig vil ég færa skýrsluhöfundum, sem væntanlega eru starfsmenn utanríkisþjónustunnar hér heima og í Brussel, þakkir fyrir þeirra mikilvægu og vel unnu störf.

Hér hefur talsvert verið rætt um það hvort menn séu svo og svo miklir Evrópusinnar eða sambandssinnar, stuðningsmenn eða andstæðingar aðildar að Evrópusambandinu. Ég get sagt fyrir mína parta að ég er Evrópusinni en ekki er víst að allir leggi sama skilning í það hugtak. Ég er ekki Evrópusinni í þeim skilningi að ég sé áhugasamur um aðild að Evrópusambandinu. Ég er hins vegar áhugasamur um gagnkvæmt samstarf innan Evrópu á margvíslegum sviðum og það er eðlilegt að menn ræði hvernig þeirri samvinnu er háttað og hvaða farveg menn velja henni.

Ég get líka sagt að margt í evrópsku samhengi, menning, saga, bókmenntir og listir, eru hlutir sem höfða mjög til mín og margra þeirra sem kalla sig Evrópusinna. Í störfum mínum að borgarmálum hef ég haft tilhneigingu til að tala sérstaklega fyrir skipulagsstefnu og arkitektúr sem er evrópsk í eðli sínu frekar en allt annað. Að mörgu leyti og í mörgu samhengi get ég því kallað mig Evrópusinna en um leið er ég líka alþjóðasinni. Ég tel að þjóð eins og okkar eigi að hafa heiminn allan undir í erlendum samskiptum og það hefur e.t.v. aldrei verið brýnna en nú. Aukin samvinna milli ólíkra þjóða og menningarheima og heimshluta, hvort sem er á sviði efnahags og viðskipta, menningar og lista, þróunarmála, orku- og umhverfismála eða á öðrum sviðum, er líklegasta leiðin til að draga úr spennu í samskiptum þjóða og auka skilning og umburðarlyndi í alþjóðamálum.

Vissulega eru viðskipti Íslands við Evrópusambandið mikilvæg og skipa ríkan sess í utanríkisviðskiptum þjóðarinnar. En alþjóðleg viðskipti einkennast í síauknum mæli af því að þar eru þrjú stór markaðssvæði, Evrópusambandið, Ameríka og Suðaustur-Asía. Það er óráðlegt fyrir smáríki eins og Ísland, sem er bæði mjög háð innflutningi og útflutningi, að taka sér stöðu innan tollmúra Evrópusambandsins. Möguleikar okkar til framtíðar felast ekki síst í viðskiptum í fjarlægari heimshlutum og þangað eigum við að beina sjónum okkar í auknum mæli í stað þess að lokast inni í heimi Evrópusambandsins. Frá mínum bæjardyrum séð er sá heimur allt of sjálfhverfur og miðar að því að steypa alla í sama mót. Stefnan hefur verið tekin á sambandsríki með ákvörðun um að setja á stofn embætti forseta Evrópusambandsins, utanríkisráðherra og sérstaka utanríkisþjónustu. Þá verður sjálfstæði aðildarríkjanna í löggæslu og dómsmálum skert og sömuleiðis aðild að framkvæmdastjórn sambandsins.

Hagsmunum Íslands að því er varðar innri markaðinn er að minni hyggju ágætlega fyrir komið með samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Raunar má færa rök fyrir því að sá samningur sé þegar orðinn umfangsmeiri en menn sáu fyrir í fyrstu og margvísleg löggjöf er tekin inn í íslenskan rétt á grundvelli þess samnings. Það er skiljanlegt að menn velti fyrir sér hvernig við sem sjálfstæð þjóð komum að þeim ákvörðunum. Þegar ákvarðanir á grundvelli EES-samningsins krefjast lagabreytinga á Íslandi þarf Alþingi að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara sem stjórnvöld gera en ég tel mikið umhugsunaratriði hvernig að þeim málum er staðið á Alþingi. Mikið vantar á að skuldbindingar Íslands í EES-samningnum sem krefjast lagabreytinga fái tilhlýðilega og lýðræðislega umfjöllun á Alþingi á frumstigi og mér virðist sem þingið standi jafnan frammi fyrir gerðum hlut og eigi fárra annarra kosta völ en aflétta stjórnskipulega fyrirvaranum óháð efnislegri afstöðu þingsins til viðkomandi máls. Þetta er óviðunandi staða fyrir þjóðþingið en úr henni má vissulega bæta með skilvirkari vinnubrögðum. Skýrslan boðar raunar að utanríkisráðherra muni leggja tillögur þar að lútandi fyrir ríkisstjórn en eðlilegra væri kannski að þingið sjálft tæki ákvörðun um það hvernig það vill haga þessum málum.

Hér mætti til að mynda draga lærdóm af skipulagi norska Stórþingsins sem er undir sömu sök selt og Alþingi Íslendinga en málefni EES-samningsins koma þar til umfjöllunar í sérstakri EES-þingnefnd. Hana skipa nefndarmenn í utanríkismálanefnd þingsins annars vegar og þingmannanefnd EFTA hins vegar. Þessi skipan mála gæti í meginatriðum einnig átt við hér á landi og þannig væri framfylgt tillögum Evrópunefndar forsætisráðherra frá því í fyrra, sem lagði til að sérstök nefnd Alþingis mundi fylgjast með framkvæmd EES-samningsins en þar er líka lagt til að Alþingi eigi sinn fulltrúa í Brussel og sú hugmynd er líka nefnd í vinnuskjali um framtíðarhorfur Evrópska efnahagssvæðisins sem þingmennirnir Katrín Júlíusdóttir og Diana Wallis hafa unnið fyrir sameiginlega EES-nefnd EFTA og Evrópusambandsins. Raunar er ástæða til að kalla eftir svörum við því hér hvað líður framgangi tillagna Evrópunefndarinnar almennt séð.

Sú skýrsla sem hér er lögð fram fjallar um afmarkaðan þátt Evrópumála, þ.e. innri markaðinn. Í skýrslunni er m.a. fjallað um stefnumótun um málefni siglinga og sjávar og ríkulegt framlag Íslands til þeirrar vinnu tekið sem dæmi um að Ísland geti haft áhrif á stefnumótun sem varðar hagsmuni okkar, enda þótt við séum ekki innan Evrópusambandsins. Fullyrðingar um áhrifaleysi eiga bersýnilega ekki við í þessu tilliti og það er a.m.k. alveg ljóst að við getum nýtt enn betur þau tækifæri sem EES-samningurinn sannarlega gefur í þessu tilliti.

Mér finnst ástæða til að drepa á nokkra þætti sem vikið er að í skýrslunni sérstaklega og leita eftir svörum og viðhorfum hæstv. utanríkisráðherra í því sambandi. Í fyrsta lagi vil ég nefna sérstaklega úrgangsmál en í skýrslunni er fjallað um væntanlega endurskoðun á úrgangslöggjöf Evrópusambandsins. Þar kemur fram að þar verði um miklar breytingar að ræða, m.a. hvað varðar sveitarfélögin. Ég vil því leita eftir viðhorfum og svörum ráðherra við því hvernig samráði við hagsmunaaðila, m.a. sveitarfélögin, er háttað hvað þetta snertir og hvernig ætlunin er að mæta þeim mikla kostnaði sem þar er talað um.

Í öðru lagi vil ég nefna póstþjónustuna sem nefnd er á bls. 21 í skýrslunni. Þar kemur fram að einkavæða eigi póstþjónustuna frá og með 1. janúar á næsta ári. Ég vil leita eftir viðhorfum ráðherrans til þess, hvort hann sé sammála því að fara út í að einkavæða póstþjónustuna og hvort Ísland muni þá nýta sér frestunarheimildir í samningnum til ársloka 2010 sem einkum er hugsuð fyrir ríki þar sem byggð er strjál sem væntanlega gæti átt við hér.

Í þriðja lagi langar mig að nefna loftferðasamninginn en talað er um sérstakan samning Evrópusambandsins við Bandaríkin um loftferðamál. Almenna reglan virðist vera sú að aðildarríkin afsala sér rétti til að gera sjálfstæða loftferðasamninga og það er því spurningin hvort hugsanleg aðild okkar að loftferðasamningi Evrópusamningsins við Bandaríkin mundi takmarka réttindi okkar og möguleika á gerð annarra loftferðasamninga.

Ég vil líka nefna mál sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson vakti máls á sem varðar frjálsa för og rætt er á bls. 25. Ég leita eftir svörum um það hvar það mál sé statt á vettvangi væntanlega félagsmálaráðuneytisins og/eða dómsmálaráðuneytisins og hvaða afstöðu ríkisstjórnin muni taka í því efni.

Fleiri mál væri hægt að fara inn á en sökum takmarkaðs tíma ætla ég að láta þetta duga nema hugsanlega spyrja um það sem stendur á bls. 32 og varðar varnarmál, hvort þar sé verið að reyna að koma okkur inn í hernaðarsamvinnu Evrópusambandsins með einhverjum hætti.

Það er staðreynd að þeim þjóðum sem hafa valið að standa utan Evrópusambandsins hefur vegnað vel. Sviss, Ísland og Noregur eru skýr dæmi um það og raunar er andstaðan í Noregi meiri nú en nokkru sinni fyrr. Íslenskt efnahagslíf hefur ekki átt við þau vandamál að stríða sem einkenna evrusvæðið, sem eru skortur á hagvexti og mikið atvinnuleysi, þótt vissulega hrjái okkur annars konar böl. Við erum sannarlega, eins og hér hefur komið fram, hæst á lífskjaralista Sameinuðu þjóðanna.

Það er rétt hjá hæstv. utanríkisráðherra að ekki verður farið inn í Evrópusambandið nema þjóðin samþykki í sérstakri atkvæðagreiðslu. Raunar er það mín skoðun að ef pólitískur vilji mundi skapast til að sækja um aðild að Evrópusambandinu ætti fyrst að spyrja þjóðina þeirrar grundvallarspurningar hvort stjórnvöld ættu að hefja aðildarviðræður. Þá því aðeins að svarið við þeirri spurningu verði jákvætt yrði síðan farið í viðræður og samningsniðurstaða þá einnig borin undir þjóðina í annað sinn.

Enda þótt sú skýrsla sem hér er til umræðu beini sjónum einkum að innri markaði Evrópska efnahagssvæðisins tel ég mikilvægt að undirstrika að við Íslendingar tökum þátt í margvíslegu samstarfi í Evrópu utan samstarfsins við Evrópusambandið. Hér á ég fyrst og fremst við Evrópuráðið í Strassborg og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu í Vín. Eðlilegt er að leggja aukna áherslu á lýðræðislega samvinnu á borð við þá sem fram fer í Evrópuráðinu. Þangað senda öll ríki álfunnar fulltrúa frá sínum þjóðþingum og einnig frá sveitarstjórnarstiginu og skilyrði fyrir aðild lúta að mannréttindum en ekki efnahagsmálum. Evrópuráðið er vettvangur fyrir umræðu um ýmis mikilvæg samfélagsleg málefni og samskipti aðildarríkjanna innbyrðis með það að markmiði að standa vörð um mannréttindi og lýðræði og stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum. Evrópuráðið hefur reynst sérlega mikilvægt fyrir nýfrjáls ríki Austur-Evrópu og stofnanir þeirra í framþróun lýðræðislegra stjórnarhátta.

Markmið Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu er að stuðla að friði og öryggi og samvinnu aðildarríkjanna og standa vörð um virðingu fyrir mannréttindum. Þar eru þróaðar leiðir til að koma í veg fyrir ágreining milli ríkja og stuðla að eflingu lýðræðislegra stofnana. Það er mín skoðun að starf okkar innan þessara vébanda sé vanmetið og að stjórnvöld hafi ekki gefið því nægilegt vægi eða stutt það eins og æskilegt hefði verið. Sjálfstæð og fámenn þjóð, sem er þekkt að því að vera herlaus, enn þá a.m.k., hefur ekki sjálf farið með ófriði á hendur öðrum, þar sem staða mannréttinda og lýðræðismála er tiltölulega góð, þjóð sem hefur á fáum áratugum brotist úr sárri fátækt til velsældar er vel til þess fallin að vera öðrum fyrirmynd og leggja sitt af mörkum til friðsamlegrar sambúðar þjóða.

Frú forseti. Ég fagna þeirri nýbreytni að fjalla sérstaklega um Evrópumálin á Alþingi og tel það framfaraspor. Ég vil líka þakka fyrir þessa skýrslu, hún er ágæt eins langt og hún nær. Vissulega þarf að ræða Evrópumálin á mun breiðari grunni og ég vænti þess að í næstu skýrslu um Evrópumál verði það gert.