135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[14:17]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir þá skýrslu sem hér hefur verið lögð fram og verið hefur framlag í umræðuna. Ég er þeirrar skoðunar að við séum að fjalla um eitt mikilvægasta hagsmunamál íslensku þjóðarinnar. Ég tek undir það sjónarmið að það hafi tvímælalaust verið mikið heillaskref þegar við gerðumst aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu og að það hafi í raun verið undirstaða þeirrar framþróunar sem hér hefur átt sér stað á síðustu árum að verulegu leyti.

Varðandi þau atriði sem hér er um að ræða er spurning hvort umræða um Evrópusambandið og EES-samninginn og atriði sem að því lúta þurfi ekki að koma oftar til umræðu hér á Alþingi því að í skýrslunni er m.a. verið að fjalla um að Alþingi og einstakir þingmenn þurfi að koma meira að afskiptum á fyrri stigum varðandi hluti sem koma við Evrópusambandslöggjöfinni.

Í skýrslunni er réttilega bent á að við höfum formlega aðkomu að ESB-málum á fyrsta stigi. Þá höfum við í raun mun takmarkaðri aðkomu en mér sýnist vera komin fram varðandi skýrsluna, þ.e. við getum verið álitsgefendur á fyrsta stigi en síðan höfum við ekkert um málið að segja og okkur er gert sem EES-ríki á grundvelli EES-samningsins að samþykkja það sem síðar er að okkur rétt. Það er mjög bagalegt og galli við EES-samninginn að við skulum ekki geta fylgst með og haft áhrif á öllum stigum löggjafarstarfsins til þess að breyta þeirri löggjöf sem við erum síðan neydd til að taka inn í löggjöf okkar, hvort sem okkur líkar betur eða verr. EES-gerðirnar skipa sífellt mikilvægari sess í löggjöf landsins og því skiptir grundvallarmáli að við höfum möguleika til þess að fylgjast með, hafa áhrif á öllum stigum.

Í annan stað er vikið að því í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra að mikilvæg forsenda slíkrar málafylgju sé að Alþingi og kjörnir fulltrúar hafi vakandi auga fyrir málefnum innri markaðar mun fyrr í stefnumótunar- og löggjafarferlinu en hingað til hefur tíðkast. Ég er algjörlega sammála þeim sjónarmiðum sem þar koma fram.

Í því sambandi er spurningin: Hvernig er hægt að koma því við? Hvaða kosti eiga þingmenn á því að fylgjast með virkum hætti með því sem er að gerast á vettvangi Evrópusambandsins og þeirri lagasmíð eða reglusmíð sem þar er um að ræða? Svarið er að það er mjög takmarkað. Hægt er að hugsa sér að í auknum mæli séu, fyrir tilstuðlan utanríkisráðuneytisins, sendar gerðir á vinnslustigi, á því stigi sem við höfum formlega aðkomu að, þannig að þingmenn og þingflokkar geti þá gert grein fyrir sjónarmiðum sínum. Ekki er um slíkt er að ræða í málum eins og háttar til nú.

Ég tel að það væri æskilegt og nauðsynlegt til þess að við, ríkisstjórnin og þeir sem halda utan um okkar mál, hefðu þá tækifæri á vettvangi ESB, þar sem við komum að okkar málum á fyrsta stigi, að gera grein fyrir þeim sjónarmiðum og viðhorfum sem uppi eru á Alþingi Íslendinga. Eins og málum háttar nú eru það eingöngu fulltrúar framkvæmdarvaldsins sem hafa um málið að segja en ekki þjóðkjörnir fulltrúar löggjafarvaldsins.

Ég bendi á í þessu sambandi að það kann að vera að til þess að ná því markmiði, sem hæstv. utanríkisráðherra bendir réttilega á í skýrslu sinni um þetta atriði, þurfi að gera þingmönnum kleift að fylgjast vel með og eiga kost á því að ráða einstaklingsbundið til sín aðstoðarmenn og/eða sérfræðinga til að kanna og fara ofan í ákveðin mál. Þar kemur eitt með öðru atriði sem ég vék að í umræðunni um þingskapafrumvarpið. Þingmenn eru þingmenn þjóðarinnar en eru ekki kjörnir fyrir ferkílómetra eingöngu eða landshluta. Þeim ber að gæta þess að setja lög sem hafa gildi fyrir alla þjóðina og þar af leiðandi skiptir máli að þingmenn hafi jafna stöðu til þess að gera það til þess að þeir geti rækt mál sín, líka hvað varðar aðstoð í þinginu.

Í skýrslunni er vikið að því að endurskoðunarsáttmáli ESB muni færa Evrópuþinginu og þjóðþingum aðildarríkjanna aukna hlutdeild í löggjafarferli ESB. Ég get ekki séð með hvaða hætti það verður gert en æskilegt væri að fá skýringar á því frá hæstv. utanríkisráðherra hvað þar er átt við.

Því er haldið fram í skýrslunni að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið hafi reynst vel og síðan er vikið að fjölgun aðildarríkjanna. Það hlýtur að vera spurning um, með tilliti til þess sem er að gerast og hefur verið að gerast í Evrópusambandinu, hvort ekki sé full ástæða til að taka samninginn um Evrópska efnahagssvæðið til heildarendurskoðunar. Það ætti m.a. að gera með tilliti til þess að ríki EES eigi virkari rétt til að hafa áhrif á gang mála á öllum stigum og sitja í þeim nefndum sem fjalla um löggjafarmálefni á öllum stigum ferlisins. Það er óviðunandi aðstaða eins og er í dag þar sem fulltrúum EES-ríkja eins og Noregs, Íslands og Liechtensteins, er vikið úr þeim herbergjum þar sem um málin er verið að fjalla, löggjafarmálefni, af því þau eigi ekki heima og hafi ekki rétt til setu þar.

Í skýrslunni er vikið að stækkun Evrópusambandsins og frjálsu flæði fólks í vinnu. Spurning er um — atriði sem kemur kannski ekki til með að skipta máli og vonandi skiptir aldrei máli — hvort Tyrkland gerist aðili að Evrópusambandinu. Ef um slíkt væri að ræða sýnist mér að við okkur blasti enn þá meiri vandi en við búum við í dag ef við ætlum að halda óbreyttri stefnu varðandi frjálst flæði erlends vinnuafls til landsins. Vikið er að aðgerðum og viðhorfum í sambandi við þau atriði án þess að nákvæmlega hafi verið gerð grein fyrir hver viðhorfin eru, samanber blaðsíðu 22 í skýrslunni.

Ég vil í því sambandi vekja sérstaka athygli á ákveðnu atriði. Á blaðsíðu 25 í skýrslunni er sagt frá ágreiningi og í því sambandi er eiginlega tvennt sem kemur til skoðunar. Það er í fyrsta lagi þörf smáríkja eins og t.d. Íslands og Liechtensteins til að hafa ákveðnar varnaðarreglur varðandi frjálst flæði, jafnvel ákveðnari en eru í dag, og í annan stað möguleika, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson minntist á, til þess að geta svarað eftirspurn eftir sérhæfðu starfsfólki. Það virkar því eiginlega í báðar áttir.

Varðandi önnur atriði sem fjallað er um, er vikið að lyfjamálum á blaðsíðu 26 og síðan að neytendamálum sem mér finnast vera verulega góð atriði. Það eru ákveðin atriði í því sambandi sem ég vil vekja athygli á. Þar segir að markmiðið sé að árið 2013 geti neytendur Evrópusambandsins og EES-svæðisins verslað hvar sem er innan svæðisins, hvort sem það í hverfisverslun eða á internetinu, með sama öryggi og vernd, sé það til. Og þá spyr ég: Er það markmiðið að það sé með allar vörur? Eigum við von á því að íslenskir neytendur njóti þess hagræðis sem þarna er um að ræða og að er stefnt hvað varðar verslun í sambandi við fjármálastarfsemi, lyf, matvæli og aðrar neysluvörur? Það væri mjög fróðlegt að heyra skýringar á því. Sé svo er spurningin um hvaða gildi þeir fyrirvarar hafa sem við höfum sett í EES-sáttmálann varðandi verslun með ákveðnar vörur.

Ég segi bara miðað við það sem hér er um að ræða: Guð láti gott á vita, megi íslenskir neytendur búast við því að verða leystir undan því oki sem ýmsir hafa sett á þá með mun hærra verði, t.d. á lánum og öðru og ég tali nú ekki um lyfjaokrið sem þeir þurfa að búa við.

Kaflinn um neytendamál gefur tvímælalaust ákveðnar vonir um að vel verði að þessum málum staðið og því hefur miður verið svo að við höfum alltaf verið eftir á varðandi viðunandi neytendalöggjöf. Ég verð að segja hæstv. viðskiptaráðherra það til hróss að ég tel að hann sé fyrsti viðskiptaráðherrann sem hefur sett málefni neytenda í forgang og ætlar sér greinilega ekki að vera eftir á þegar um slík mál er að ræða heldur bara að gera hlutina fyrir fram.