135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[14:39]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, hér er ekki um neina stefnubreytingu að ræða. Þessi mál hafa haft mjög langan aðdraganda og voru í rauninni komin af stað áður en ég kom í landbúnaðarráðuneytið. Hér er um að ræða eðlilegar viðræður sem hafa átt sér stað og eiga sér stað stöðugt á milli okkar og Evrópusambandsins um ýmis hagsmunamál eins og þessi.

Þeir samningar sem hafa tekist milli okkar og Evrópusambandsins varðandi landbúnaðarmálin fela í sér tvíhliða heimildir, annars vegar heimildir um einhvern innflutning á landbúnaðarvörum, auðvitað undir mjög sterku eftirliti sem við viðurkennum, og hins vegar líka opnun á útflutningi á landbúnaðarvörum okkar til Evrópusambandsins. Þetta er farið að telja nokkuð, bæði í útflutningi á kjöti en ekki síst á mjólkurvörum.

Það sem við erum að horfa til eru einhvers konar tvíhliða samningar sem geta þá falið í sér gagnkvæmar heimildir fyrst og fremst auðvitað til að styrkja möguleika okkar á útflutningi en einnig gerum við okkur grein fyrir að það gæti haft áhrif á innflutning á einhverjum tilteknum vörum. Þetta felur ekki í sér neina grundvallarstefnubreytingu varðandi stuðning okkar við landbúnaðinn, það er önnur umræða, hér er eingöngu um að ræða eðlilegt framhald á þeirri vinnu sem staðið hefur yfir árum saman.