135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[14:40]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var sagt í minni sveit þegar menn töluðu þannig að ekki skildist hvað þeir sögðu að þeir væru með kartöflu uppi í sér. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að mér fannst eins og hæstv. ráðherra væri með kartöflu uppi í sér núna, ég skildi ekki alveg hvað hann var að segja. Hann sagði: Nei, það felast engar grundvallarbreytingar í stefnu okkar í þessum viðræðum. En svo fór hann að tala um að þær hlytu auðvitað að snúast um það að fella niður að einhverju leyti þá tollvernd sem er gagnvart innflutningi á matvælum frá Evrópusambandsríkjum. Ég sé ekki að það geti snúist um neitt annað.

Allur innflutningur á matvælum frá Evrópusambandsríkjunum er tollfrjáls nema um sé að ræða matvæli sem íslenskir bændur framleiða sjálfir, þ.e. kjötvörur og mjólkurafurðir. Um hvað eiga þessar viðræður að snúast? Ég verð eiginlega að fá að spyrja hæstv. ráðherra aftur af því að hann svaraði bara: Ýmis hagsmunamál. Hver eru þessi ýmsu hagsmunamál sem menn ætla að ræða saman um? Varla er Evrópusambandið að ræða við Íslendinga um mál sem þegar er engin tollvernd á, það tekur því ekki að efna til viðræðna um slíkt. Ég verð þess vegna, virðulegi forseti, að ganga eftir því að hæstv. ráðherra svari skýrar í þessum efnum til hvers þessar viðræður eiga að leiða.