135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[14:42]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef um væri að ræða grundvallarbreytingar hefðu þær breytingar þegar átt sér stað. Það sem ég var að vekja athygli á er það að við höfum núna opnað á tilteknar tollheimildir fyrir Evrópusambandið til innflutnings á tilteknum vörum alveg eins og hæstv. utanríkisráðherra rakti í máli sínu. Þær viðræður sem eiga sér stað eru tvíhliða viðræður sem við vitum ekki hvort leiða til einhverrar niðurstöðu en í því sambandi munum við auðvitað ekki veikja stöðu landbúnaðarins á nokkurn hátt. Við erum um leið að reyna að opna möguleika fyrir útflutning okkar á tilteknum landbúnaðarvörum sem við teljum okkur hafa hagsmuni af.

Það er engin spurning um að núgildandi samningar fela í sér heilmikil tækifæri. Það er örugglega hægt að telja í einhverjum tugum milljóna þá hagsmuni sem t.d. mjólkurframleiðendur hafa af því að geta flutt út sínar mjólkurvörur til Evrópusambandsins. Við þekkjum það líka í viðræðum við Evrópusambandið að þar er aldrei neitt látið ókeypis af hendi. Við gerum okkur grein fyrir að í slíkum viðræðum er um að ræða tvíhliða samninga sem taka bæði til útflutnings og innflutnings. En þetta eru engar grundvallarbreytingar, við erum einfaldlega að fara yfir þessi mál í þessu samhengi. Við erum að skoða ýmislegt sem ég get út af fyrir sig ekki tíundað hér vegna þess að ég hef það ekki alveg tiltækt fyrir framan mig en þetta eru ekki grundvallarbreytingar sem verið er að tala um. Við erum að þróa þá stefnu sem fylgt hefur verið, bæði af forvera mínum og öðrum sem hafa komið að þessu máli.