135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[14:53]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í skýrslu utanríkisráðherra kemur fram að íslensk stjórnvöld hafi fylgst með og tekið þátt í mótun stefnu Evrópusambandsins um málefni siglinga og sjávar, eftir því sem fært er. Það eru mikilsverð málefni sem þar er fjallað um og Evrópusambandið hefur mótað sér stefnu um þau. Þar er m.a. tekið á vöktun siglinga, lífríkis og því að vernda líffræðilegan fjölbreytileika sjávar fyrir mengun.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort í þessu ferli hafi fæðst eða mótast stefna íslensku ríkisstjórnarinnar varðandi þessi málefni, sérstaklega það sem er aðkallandi og fram undan, m.a. varðandi umferð olíuflutningaskipa. Fyrirhuguð áform hæstv. iðnaðarráðherra um rannsóknir og leit eftir olíu á Drekasvæðinu gæti haft mikil áhrif á sjávarlífríkið. Ef illa fer getur farið svo að miklir hagsmunir verði í uppnámi, í lífríki hafsins og fiskstofnunum.

Það þarf líka að verja íslenska hafsvæðið fyrir nýjum lífverum sem hafa borist í kjölvatni með skipum frá erlendum ókunnum hafsvæðum og valdið usla, eins og kunnugt er. Mig langar að inna eftir því hvort ríkisstjórnin hafi mótað sér afstöðu og stefnu sem væri til þess fallin að vernda lífríki hafsins, fiskstofna sem annað, með sem tryggustum hætti.