135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[15:16]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Skýrslan sem er til umræðu nú heitir eitthvað á þá leið „Ísland á innri markaði Evrópu“. Það hefur verið kjarninn í EES-samningnum að koma á innri markaði í fjórum þáttum frelsisins, m.a. viðskiptum og fjármagnsflutningum, með þeim rökum að verði Ísland eða íslenskur markaður hluti af stærri markaði njóti íslenskir neytendur góðs af því. Það eru fleiri sem starfa á þeim markaði og bjóða fram vöru sína og þjónustu og samkeppnin tryggir að þjónustan sé góð og verðið sé lágt.

Nú hefur lengi verið töluvert mikið frelsi, ef ekki fullkomið frelsi, á fjármagnsmarkaðnum. Það hefur engu að síður ekki leitt til þess að íslenskir neytendur hafi notið góðs af því í neinum verulegum mæli, skulum við segja, varðandi lánskjör frá viðskiptabönkunum. Þekkt er að vextir af fjármagni eru miklu hærri hér á landi en innan Evrópusambandsins, t.d. eru vextir á íbúðalánum í Svíþjóð aðeins liðlega 2% og engin verðtrygging, sama er í Noregi. Á Englandi sá ég fyrir ári síðan að vextir sem þar voru í boði voru eitthvað milli 5 og 6% af húsnæðislánum og engin verðtrygging. Hér eru vextir um 6% plús verðtrygging auk þess sem skilyrðin sem viðskiptabankarnir bjóða neytendum fyrir því að veita þeim íbúðalán eru óeðlileg.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hverju sætir að innri markaðurinn virkar ekki gagnvart neytendum á fjármálamarkaðnum hér á landi?