135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[15:18]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Svarið við því blasir í sjálfu sér við af því að við erum hluti af innri markaði en við stöndum fyrir utan nokkra þætti og þar með peningamálin, myntsvæði og annað. Átt hafa sér stað miklar lántökur hér í erlendum myntkörfum þar sem neytendur hafa tekið óverðtryggð lán með 4, 5 og 6% vöxtum, þeir taka á sig gengisáhættuna og það á lengri tíma lánum. Það er valkostur við verðtryggð lán bankanna með hærri vaxtaprósentum. Vaxtaprósentan á þeim ákvarðast því að sjálfsögðu að stórum hluta af þeim stýrivöxtum sem hér eru innan okkar litla myntsvæðis þannig að því leytinu stöndum við út af samningnum af því að við erum ekki aðilar að sambandinu. Þar með eigum við ekki kost á aðild að myntbandalaginu eða aðild að þeim stóra markaði sem þar er.

Það svarar því að viðskiptabankarnir bjóða eins vel og þeir geta innan þess ramma sem þeir starfa af því að við erum einfaldlega fyrir utan peningamarkaðinn. Ég tel því að þeir hafi verið að bjóða og bjóði íslenskum neytendum eins ágæt lánskjör að flestu eða öllu leyti og þeir hugsanlega geta. Vaxtamunurinn margumræddur og umdeildur er til staðar, hann er viðurkenndur sem ákveðinn fórnarkostnaður okkar fyrir því að halda úti sjálfstæðum gjaldmiðli. Miðað við að við kjósum að gera það verður hann væntanlega til staðar og kjör Íslendinga gagnvart íslenskum lántökum eru aðeins önnur en þekkjast erlendis. Verðtryggingin er þó að sjálfsögðu sjálfstætt mál þar fyrir utan enda þekkist hún hvergi annars staðar nákvæmlega í þessari mynd þó að hún sé til í öðrum útgáfum á ýmsum öðrum stöðum.