135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[15:20]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má vel vera að skýringin sé sú sem hæstv. ráðherra nefnir. Ég er samt vantrúaður og dálítið hissa á þeim sem hafa það að starfi að leitast við að græða peninga, að vilja ekki græða peninga á Íslandi. Af hverju skyldu sænskir bankar vilja lána sænskum íbúðakaupendum peninga til að kaupa sér íbúðir og borga fyrir það aðeins liðlega 2% vexti þegar þeir geta lánað íslenskum íbúðakaupendum peninga með 6% vöxtum plús verðtryggingu, sem er um 6% í dag, eða 12% vöxtum á ári, sex sinnum hærri vexti? Hvers vegna eru erlendir bankar ekki komnir hingað til starfa á innlendum fjármálamarkaði og keppa um viðskipti einstaklinga og fyrirtækja við íslensku bankana? Hvers vegna virkar ekki innri markaðurinn á Íslandi? Það er spurningin sem mér finnst eiginlega vera ósvarað og er ekki alveg sammála hæstv. ráðherra um að svarið sem hann trúir á að sé rétt, dugi.

Mér finnst vanta skýringar á þessu. Hér er frelsi fyrir hendi, það vantar ekkert upp á það. Það vantar bara upp á að samkeppnin virki. Þá spyr maður: Ef samkeppnin virkar ekki, ef þetta er svona lítið þjóðfélag og viðskipti hér fyrir erlenda aðila eru ekki ábatasöm, er þá rétt að trúa á samkeppnina ef hún færir okkur ekki þann ávinning sem menn sækjast eftir? Verða menn þá að beita einhverjum öðrum aðferðum til þess að bæta kjör almennings hér á landi ef samkeppnislögmálin virka ekki?

Við skulum athuga það að erlendir aðilar hafa fjárfest á Íslandi fyrir um 500 milljarða kr. Fyrir þeim er það ekki svo mikil áhætta að fjárfesta í íslenskum krónum að þeir láti það á móti sér þannig að mér finnst að í raun vanti ekki upp á áhugann í þeim efnum, en ég spyr: Af hverju koma ekki erlendir bankar til starfa hér á landi og keppa við íslensku bankana?