135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[15:40]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er mikil gæfa íslensks samfélags að hafa búið svo vel að eiga framsækna, skynsama og öfluga verkalýðshreyfingu og skynsöm samtök atvinnurekenda sem komu upp lífeyriskerfi sem skapaði grunn undir efnahagslegan stöðugleika, sátt á vinnumarkaði og framsækna stefnu í reglum á vinnumarkaði. Það er nákvæmlega þessi arfur sem ég held að eigi mikið erindi til Evrópu. Ég held satt að segja að það fyrirkomulag sem við höfum komið okkur upp í samskiptum aðila vinnumarkaðarins sé algjörlega til fyrirmyndar.

Ég vil undirstrika það að ávinningurinn af reglun Evrópusambandsins fyrir íslenskt samfélag er ótvíræður. Ég held enn fremur að sumir viðskiptajöfrar sem mikla fyrir sér áhyggjur af aðild að Evrópusambandinu hafi kannski ekki alveg áttað sig á því að flestöll þau svið sem menn hafa þar áhyggjur af, reglur um viðskiptahætti, reglur um vinnumarkaðsmál, eru þegar bindandi fyrir okkur með sama hætti og gildir í Evrópu.

Sumir hafa haft að því þungar áhyggjur að aðild að Evrópusambandinu mundi skaða samkeppnisstöðu okkar á mörkuðum annarra ríkja. Þá vil ég einfaldlega undirstrika það, að í flestum tilvikum falla saman fríverslunarsamningar sem Ísland hefur við þau ríki og svo Evrópusambandið, nema að því töldu að net fríverslunarsamninga Evrópusambandsins við önnur ríki er mun víðtækara og víðfeðmara og öflugra og mundi veita okkur, ef eitthvað er, ríkari markaðsaðgang í heildina litið.

Ég held að það sé mikilvægt að menn átti sig á því að Evrópusambandið er að þróast mjög hratt nú sem ríkjabandalag fjölmargra ríkja þar sem smáríki eru í stórum meiri hluta. Ég held að það mundi henta okkur vel að eiga nánara samstarf einmitt á sviði viðskiptastefnu við þessi ríki.