135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[15:42]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að játa það að stundum hef ég velt því fyrir mér hvort það hafi verið vegna þess að við Íslendingar vorum svo klókir eða svo heppnir, að við duttum niður á það lífeyrissjóðakerfi sem við búum við. Suma daga hallast ég að hinu síðara. Það geti bara varla verið að við höfum verið svona klár.

Staðreyndin er samt sú að hér eru öflugir lífeyrissjóðir. Stærð þeirra er einhvers staðar í kringum 130% af þjóðarframleiðslunni en sambærileg tala fyrir flest ríki OECD er einhvers staðar í kringum 25%, sem sýnir það að okkar samfélag er vel í stakk búið til að takast á við þann vanda sem auðvitað steðjar að okkur eins og öðrum þróuðum iðnríkjum, að aldurssamsetning þjóðarinnar er að breytast.

Ég held að þegar menn skoða stöðu álfunnar og skoða stöðu ríkja ESB í samanburði við Bandaríki Norður-Ameríku og Asíuríkin, hin hrattvaxandi Asíuveldi, þá því miður blasi sú staðreynd við að hagvöxturinn hefur verið lítill, það er gríðarleg pressa á evrópsk fyrirtæki vegna þess að launakostnaður og ýmis annar kostnaður er mjög hár í álfunni, vinnumarkaðslöggjöfin, og ég er ekki að kenna ESB um það, mjög gjarnan eru það þjóðríkin sjálf, en slík löggjöf virðist þrífast innan þessa innri markaðar sem gerir fyrirtækjunum erfitt um vik, gerir þeim illa kleift að standa í starfsemi sinni, ýtir þeim út úr álfunni og því miður hefur hagvöxturinn verið of lágur. Það er alveg staðreynd.

Því miður virðist líka ganga illa að grípa til þeirra aðgerða sem verður að grípa til nú þegar til þess að komast hjá þeim vandamálum sem blasa svo augljóslega við. Tökum bara sem dæmi umræðuna um þjónustutilskipunina. Hvar er hún á vegi stödd og hvernig gengur að koma henni í gegn? Hér erum við að tala um 70% af allri þjóðarframleiðslu þeirra ríkja sem eiga aðild að innri markaðnum. Þetta er því ekkert smámál

Mér finnst það vera bara dæmi um að það virðist vera býsna flókið fyrir ESB (Forseti hringir.) og þær þjóðir sem mynda það ágæta bandalag að haga sínum málum þannig að hægt sé að ná árangri á þessu mikilvæga sviði.