135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[15:44]
Hlusta

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir yfirgripsmikla og afar vandaða skýrslu um Evrópusamstarfið. Við eigum gífurlegra hagsmuna að gæta í samstarfi við Evrópusambandið sem er t.d. okkar mikilvægasti viðskiptaaðili. Um tveir þriðju hlutar inn- og útflutningsviðskipta undanfarinn áratug hafa verið við aðildarríki sambandsins.

Í stuttu innleggi vil ég velta upp samhenginu milli ESB, EFTA, EES og Alþingis. Einnig kalla ég eftir enn meira samráði milli utanríkisráðherra og Alþingis um Evrópumálin en verið hefur hingað til þó að ég fagni að sjálfsögðu því skrefi sem umrædd skýrsla er.

Árið 1970 gerðumst við Íslendingar aðilar að EFTA og ríflega tveimur áratugum síðar, árið 1993, samþykkti Alþingi lög um Evrópska efnahagssvæðið. Þá voru EFTA-ríkin sex að tölu og ESB-ríkin 12. Ári eftir undirritun EES-samningsins gengu EFTA-ríkin Svíþjóð, Finnland og Austurríki inn í ESB og nú eru ESB-ríkin orðin 27 talsins og gætu á næstu árum, samkvæmt skýrslunni, orðið 35 á meðan EFTA-ríkin eru þrjú og með einungis um 1% af fólksfjölda ESB-landanna. Mikil þróun hefur verið í ESB síðan EES-samningurinn var undirritaður. ESB er nú ein öflugasta ríkjablokk í heimi með 500 millj. manna, sameiginlegan gjaldmiðil og 25% af vergri framleiðslu þjóða heims.

EES-samningurinn er veigamikil undirstaða þeirra góðu lífskjara sem við njótum hér á landi. Markmið EES-samningsins er að efla efnahagsleg tengsl aðildarþjóðanna og mynda einsleitt evrópskt efnahagssvæði með sameiginlegum reglum og sömu samkeppnisskilyrðum. EES-samningurinn nær til tveggja þátta, þ.e. samræmingar á löggjöf sem nær til innri markaðar og svo til þátttöku í ýmsum samstarfsáætlunum eins og á sviði rannsókna og þróunar, menntamála og samkeppnishæfni og nýsköpunar. Fram kemur í skýrslunni að íslenskir vísindamenn hafa verið duglegir að nýta sér rammaáætlanir og samkeppnissjóði á sviði rannsókna og þróunar. Við Íslendingar greiðum árlega framlag en höfum á hverju ári fengið meira til baka. Um leið og ég lýsi ánægju með frammistöðu okkar fólks vil ég lýsa talsverðum vonbrigðum með það að við skulum ekki gera meira með rammaáætlun á sviði samkeppnishæfni og nýsköpunar. Ég vona svo sannarlega að það standi til bóta og leita eftir frekari upplýsingum um málið.

En aftur að samræmingu löggjafar. Samkvæmt Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, höfðu um 99% þeirra tilskipana ESB sem náðu til innri markaðarins verið teknar inn í EES-samninginn árið 2006. Þannig er stór hluti löggjafar okkar Íslendinga á undanförnum árum kominn til vegna innleiðingar tilskipana frá ESB. Því leikur mér sem þingmanni og nefndarmanni í utanríkismálanefnd forvitni á að vita enn meira um ferli mála sem leiða til nýrra og breyttra laga hér á landi í krafti EES. Við þingmenn þurfum að vita hvaða málefni eru í pípunum hverju sinni þannig að við getum betur þjónað skyldum okkar við þjóðina, fylgst með, haft áhrif og búið okkur undir að taka á málum hér heima.

Í skýrslu ráðherra má lesa á milli lína um ferli mála innan ESB og EES-samningsins, hvernig við Íslendingar getum komið sjónarmiðum okkar á framfæri á fyrstu stigum mála, einnig um þær takmarkanir sem eru á tækifærum okkar til að hafa áhrif í stefnumótunar- og löggjafarferlinu og svo um samskipti ESB og EFTA. Ferlið er talsvert flókið. Ég reyndi að kortleggja það með viðeigandi hvítbókum, grænbókum og blábókum og verð bara að viðurkenna að mér tókst ekki að mála heildarmyndina. Tilurð mála er vissulega af fleiri en einum toga eða getur verið og meðferðin er margvísleg. Þegar ESB gefur út tilskipanir sem mögulega eru tækar í EES-samninginn þá tekur EFTA við og metur hvort viðkomandi tilskipun er þess eðlis og ef svo er hvernig best er að taka innleiðinguna inn í samninginn. Þetta gerist allt úti í heimi og mér hefur virst að nýjar tilskipanir komi löggjafanum hérna heima oft í opna skjöldu, samanber málin sem eru í viðauka II með skýrslunni. Þar er yfirlit yfir gerðir með stjórnskipulegum fyrirvara, mál sem ég efast um að þingmenn þekki almennt.

Það er álit flestra að EES-samningurinn hafi staðist tímans tönn, verið nægilega sveigjanlegur og þjónað íslenskum hagsmunum vel. Þetta mat er vafalaust rétt þegar horft er til baka en þó vakna ýmsar spurningar um framtíðina. Bent hefur verið á að dregið hafi úr áhuga á EES-samningnum innan ESB, enda hefur sambandið tekið verulegum breytingum á allra síðustu árum og enn meiri breytingar eru fyrirsjáanlegar. Þannig hafa mörk löggjafar á innri markaði og á öðrum sviðum orðið óljósari og upp hafa komið álitamál um hvort ESB-gerðir eða -tilskipanir séu tækar innan EES-samningsins. Í kjölfarið hefur myndast nokkurs konar grátt svæði sem veldur því að erfiðara er að nota EES-samninginn. Það er því að mörgu að hyggja.

Ég fagna því að það er vilji hæstv. utanríkisráðherra að efla samráð við Alþingi. Fram kom að skýrslan verði árlegur viðburður og tilefni til að ræða um Evrópumál á þinginu. Einnig er það vilji utanríkisráðherra að auka hlut Alþingis og utanríkismálanefndar í ákvörðunum sem tengjast ESB og EFTA. Ljóst er líka að vilji margra þingmanna er til að skipuleggja starf í þinginu þannig að aðkoma og eftirlit sé tryggt á heimavelli.

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra hefur gefið upp boltann. Þingið þarf að grípa hann og sýna frumkvæði. Umræða um skýrslu utanríkisráðherra úr ræðustól á Alþingi er ekki ein og sér skynsamlegasta leiðin til að efla samskipti og samráð utanríkisráðuneytis og Alþingis um Evrópumál. Ég vil gjarnan að við í þinginu fylgjum málinu eftir, t.d. með fundi þar sem gagnvirk og dýpri umræða á sér stað. Heppilegra hefði verið að mínu mati að hafa slíkan fund í aðdraganda umræðunnar hér í dag. Þar hefði t.d. verið kynning frá ráðherra og sérfræðingum á efni skýrslunnar, þar hefðu verið fyrirspurnir, umræða, athugasemdir og þessi gagnvirka nálgun á málin sem ég sakna í dag í þinginu. Í kjölfarið gæti skýrslan farið í umfjöllun í utanríkismálanefnd og jafnvel í öðrum nefndum þingsins sem gæfu álit sitt áður en skýrslan er formlega lögð fyrir á þinginu eins og er í dag. Ég gæti síðan spunnið alls konar aðrar tillögur en við þurfum alltént að kortleggja betur hvernig þingmenn, utanríkismálanefnd og aðrar þingnefndir geta komið að málum til að hafa áhrif og til að undirbúa þá vinnu sem þarf að eiga sér stað í þinginu vegna þátttöku okkar í EES. Það þarf að skilgreina verklag og skipuleggja starf þingsins í tengslum við EES-samninginn. Þegar hafa verið settar fram tillögur um bætt verklag í skýrslu Evrópunefndarinnar, sem hefur oft verið nefnd í dag, en ég hef ýmsar aðrar tillögur og ég tel vafalítið að fleiri þingmenn hafi fleiri tillögur í þessu samhengi. Ég ætla að láta nægja í lokin að hvetja okkur til að skoða tilhögun Evrópusamvinnunnar til lengri tíma. Við þurfum að hafa opinn hug og meta hvernig hagsmunum þjóðarinnar er best borgið.