135. löggjafarþing — 57. fundur,  31. jan. 2008.

Ísland á innri markaði Evrópu.

350. mál
[16:03]
Hlusta

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að víkja að nokkrum atriðum sem varða það sem hér er rætt um. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir framsögu í málinu en verð þó að gera nokkrar athugasemdir við þá ágætu ræðu. Mér fannst satt að segja fullmikill daðurtónn í ræðunni í garð Evrópusambandsins. Mér fannst ekki að hæstv. utanríkisráðherra væri að túlka stefnu ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum heldur stefnu Samfylkingarinnar, sem er virðingarverð út af fyrir sig. Það skiptir mjög miklu máli að menn taki þessa hluti í réttri röð en í öllum þáttum sem lúta að viðskiptum okkar við aðrar þjóðir, hvort sem er í Evrópu, Ameríku, Asíu eða annars staðar, er þó eðlilegra að vinna sumt í kyrrþey frekar en halda sífellt á lofti gylliboðum.

Hæstv. utanríkisráðherra vék að því að Alþingi ætti ekki að vera stimpilstofnun fyrir Evrópusambandið eða evrópska samvinnu en við búum við ákveðið vandamál, sem er mjög stórt að mínu mati, í þessum samskiptum. Við búum við samskipti við EES þar sem okkar eigin embættismenn, bæði í Brussel og í stjórnkerfinu hér heima, hafa túlkað reglur Evrópska efnahagssvæðisins á kaþólskari hátt en páfinn okkur í óhag. Um það eru æðimörg dæmi að það hefur bitnað á Íslendingum, bitnað á okkar litla samfélagi sem þolir ekki þessa miðstýringu. Við skulum láta liggja milli hluta hvort evrópska efnahagssvæðið og Evrópusambandið er nýtt Sovét eða ekki, það kann að vera að framtíðin meti það þannig, en við þurfum að vera vel á verði í mörgum þáttum sem kom líka fram hjá hæstv. utanríkisráðherra og einnig hjá hæstv. umhverfisráðherra og undir það er hægt að taka.

Það skiptir líka miklu máli, eins og kom fram hjá hæstv. utanríkisráðherra, að svigrúm er til túlkunar með tilliti til stöðu í hverju landi. Það svigrúm hefur að mínu mati verið notað mjög illa af hálfu íslenskra stjórnvalda. Ef grannt er skoðað eru mörg dæmi þess að svipuð mál séu metin á annan hátt eftir því hvort Ísland á í hlut eða Frakkland, Noregur, Portúgal, samsvarandi mál, til að mynda í samgöngumálum, hafnarmálum og öðru. Af hverju ættum við að búa við strangari reglur?

Hæstv. utanríkisráðherra sagði að skilin milli innanlandsmála og alþjóðamála væru að ganga sér til húðar. Þetta er mjög vandmeðfarin túlkun vegna þess að fámenn þjóð eins og Íslendingar getur ekki litið á sig sem fullvaxinn fíl í því sambandi, við erum miklu fremur fluga á vegg. Út frá þeim sjónarmiðum verðum við að ganga vegna þess að við ráðum ákaflega litlu um meðferð margra mála þó að gefið sé í skyn að við getum haft talsverð áhrif. Reynslan er einfaldlega allt önnur. Það hefur ekki síst komið fram í ýmsum atriðum sem ég nefndi hér áðan.

Það er nær að við skerpum sérstöðu okkar í samfélagi þjóðanna, sem kom reyndar líka fram hjá ráðherra, en það tel ég að eigi að vera höfuðáherslan en ekki eitthvert hliðarspor. Hæstv. ráðherra sagði að við mættum ekki halda því á lofti að við gætum losnað við skyldur annarra þjóða. Ég er ekki að tala um það, ég er frekar að gagnrýna atriði þar sem sýnt er að við höfum orðið að taka á okkur skyldur umfram aðrar þjóðir á þessum vettvangi.

Við skulum taka sem dæmi vökutíma og vökuskyldur hjá flutningabifreiðastjórum og öðrum. Þar féllum við þráðbeint í gildruna. Við tókum við heilum pakka frá Evrópska efnahagssvæðinu án þess að skilgreina hann og án þess að beita nokkrum fyrirvörum. Við tókum á móti holskeflu af reglugerðardrasli sem hentar ekki Íslandi. Það hentar til að mynda ekki Íslandi að vöruflutningabifreiðastjóri þurfi að stoppa á Holtavörðuheiði kl. 2 einhvern dag án tillits til veðurs. Ef hann gerir það ekki í hríð og byl, og getur valdið tjóni og skaða, má sekta hann háum sektum. Við sitjum uppi með þetta orðalaust. Þetta er gott dæmi um slæleg vinnubrögð um langt árabil gagnvart Evrópska efnahagssvæðinu.

Nefna má hafnarmannvirki. Íslendingar hafa breytt lögum vegna sérstöðu jaðarsvæða og vegna annarra þátta þar sem þessi mannvirki skipta höfuðmáli í uppbyggingu byggða og þróun. Fyrir sex árum var til að mynda ákveðið fjármagn sett í einar fjórar verstöðvar á Íslandi, Stykkishólm, Vestmannaeyjar og a.m.k. tvær aðrar verstöðvar, en þá stoppar ESA-dæmið. Þessu má líkja við það að báti í brimgarði væri sagt að bíða átekta og sjá hvernig færi. Þannig lifum við ekki á Íslandi. Þessir veikleikar eru í þessu kerfi og við þurfum að bregðast við þeim.

Svo leika aðrar þjóðir í Evrópusambandinu á kerfið og á okkur um leið. Við megum ekki hlutast til um styrki við hafnir eða upptökumannvirki á landsbyggðinni á Íslandi en Belgía og Holland eru á sama tíma að festa sér pláss við sjávarsíðuna, byggja hafnir í stórum stíl, allt á kostnað ríkjanna sjálfra, til þess eins að losna við umferð af vegum og flytja hana út á sjó. Þetta er einföld staðreynd sem blasir við.

Hæstv. utanríkisráðherra sagði að við ættum að halda áfram eðlilegum samruna við Evrópusambandið, hvorki hraðar né hægar en við ráðum við. Við erum ekki í Evrópusambandinu, við erum ekki í því, og ég veit ekki til þess að það sé á dagskrá hjá núverandi hæstv. ríkisstjórn að við göngum í það.